Hver tekur við af Klopp? - Dani Olmo orðaður við Man Utd - Greenwood í skiptum fyrir Gleison Bremer
   fös 28. febrúar 2020 14:29
Magnús Már Einarsson
Ari Leifs á leið til Strömsgodset
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkir hefur samþykkt tilboð frá norska félaginu Strömsgodset í varnarmanninn Ara Leifsson. Dr. Football fjallaði um málið í dag og Hrafnkell Helgason formaður meistaraflokksráðs Fylkis staðfesti við Fótbolta.net að búið sé að samþykkja tilboð.

„Það var samþykkt tilboð í vikunni í Ara. Hann á eftir að semja sjálfur um kaup og kjör," sagði Hrafnkell við Fótbolta.net í dag

Hrafnkell segir ekki ennþá ljóst hvort að Fylkir sæki sér nýjan varnarmann í ljósi þessara tíðinda en staðan verður skoðuð eftir leikinn gegn Víkingi R. í Lengjubikarnum í kvöld.

„Þetta er nýbúið að gerast og við höfum ekki rætt það frekar. VIð tökum þennan leik í kvöld og ræðum það svo í rólegheitum," sagði Hrafnkell.

Ari er 21 árs gamall en hann lék sinn fyrsta A-landsleik gegn El Salvador í síðasta mánuði. Hann hefur verið fastamaður í U21 landsliðinu en hann á fjórtán leiki að baki þar.

Ari er uppalinn Fylkismaður en hann á 63 deildar og bikarleiki að baki með liðnu. Síðastliðið sumar spilaði hann alla 22 leikina í Pepsi Max-deildinni.

Strömsgodset endaði í ellefta sæti af sextán liðum í norsku úrvalsdeildinni í fyrra en liðið mætir Viking í fyrstu umferð í ár þann 4. apríl.
Athugasemdir
banner
banner
banner