
Fram er búið að krækja sér í öflugan hægri bakvörð úr herbúðum Hauka. Sylvía Birgisdóttir er komin til félagsins og gerir tveggja ára samning.
Sylvía er 22 ára gömul og uppalin hjá Stjörnunni þar sem hún á einn leik að baki í efstu deild. Sylvía lék 12 leiki í efstu deild þegar hún var á láni hjá Tindastóli 2021 en í fyrra var hún lánuð til Hauka og lék 10 leiki í Lengjudeildinni.
Hún gæti því reynst mikilvægur liðsstyrkur fyrir Framara sem unnu 2. deild kvenna og munu reyna fyrir sér í Lengjudeildinni í sumar.
Þjálfarateymi Fram hefur miklar mætur á Sylvíu eftir að hafa starfað með henni bæði hjá Stjörnunni og Tindastóli.
„Sylvía er leikmaður sem við Aníta þekkjum vel, þar sem við þjálfuðum hana bæði hjá Stjörnunni á sínum tíma og ég fékk hana svo til Tindastóls í efstu deild. Hún er sóknarsinnaður bakvörður sem hentar vel fyrir þann fótbolta sem við viljum spila og er frábær karakter, svo við teljum hana styrkja liðið umtalsvert bæði innan og utan vallar,“ sagði Óskar Smári Haraldsson, annar af þjálfurum liðsins.