
Vestri er búinn að styrkja leikmannahópinn með þremur Dönum fyrir komandi átök í Lengjudeildinni.
Danirnir gera tveggja ára samninga við ísfirska félagið og heita þeir Morten Hansen, Mikkel Jakobsen og Gustav Kjeldsen.
Morten Ohlsen Hansen er 29 ára varnarmaður sem lék með Kórdrengjum á síðustu leiktíð og skoraði tvö mörk í átta leikjum í Lengjudeildinni.
Mikkel Jakobsen er 23 ára sóknartengiliður sem skoraði tvö mörk í 26 leikjum með Leikni R. í Bestu deildinni í fyrra.
Að lokum er Gustav Kjeldsen 23 ára varnarmaður sem lék síðast fyrir HB Torshavn í Færeyjum.
Danirnir þrír eru væntanlegir til landsins næsta sunnudag.
„Stjórn meistaraflokks Vestra bindur miklar vonir við þessa dönsku innreið í klúbbinn og hlökkum við til að sjá þá í búningnum bláa," segir meðal annars í tilkynningu frá Vestra.