Þorvaldur Örlygsson varð nokkuð óvænt kosinn formaður KSÍ um helgina en hann var einn þriggja í framboði og í skoðanakönnun í síðustu viku rak hann lestina þar sem aðeins 7% sögðust ætla að kjósa hann en yfir 30% vildu ýmist Guðna Bergsson eða Vigni Má Þormóðsson.
Kjörið fór fram á ársþingi KSÍ á laugadaginn og það var mál manna á ársþinginu að það sem hafi ráðið úrslitum hafi verið þrumuræða Þorvalds þar sem hann seldi sig sem besta kostinn fyrir knattspyrnuhreyfinguna.
Um leið og ræðu hans lauk mátti heyra fulltrúa sumra félaga segjast hafa skipt um skoðun, Þorvaldur fengi sitt atkvæði. Hann væri langt áhugaverðasti kosturinn eftir ræður formannanna.
„Í dag eru í boði þrír mjög ólíkir valkostir. Ég gæti vissulega varið mínum tíma um hina tvo en það er ekki ég. Ég tala ekki aðra niður og ætla því að tala um mig og afhverju ég er rétti kosturinn," sagði Þorvaldur meðal annars og bætti við að hann væri minna í jakkafötum en meira með gras á skónum og bolta í skottinu.
Fótbolti.net birtir í dag upptöku af ræðunni mögnuðu hjá Þorvaldi, ræðunni þar sem hann sannfærði knattspyrnuhreyfinguna um að hann væri eini rétti kosturinn sem formaður KSÍ. Hana má sjá í spilaranum að ofan.
Á sama tíma vann Þorkell Máni Pétursson kosningu til stjórnar KSÍ þar sem hann varð efstur. Ræða hans vakti líka athygli en hana má sjá að neðan.
Athugasemdir