
Valgeir Lunddal hefur ekkert komið við sögu hingað til í riðlakeppni Evrópumótsins með U21 landsliðsins.
Valgeir, sem getur leyst bakvarðarstöðurnar báðum megin á vellinum, var að glíma við smávægileg meiðsli í byrjun móts en Davíð Snorri Jónasson, landsliðsþjálfari, sagði að hann hefði verið klár í slaginn í dag.
„Það voru allir klárir, hann og fleiri hefðu getað spilað. Sumir spiluðu og aðrir ekki, það er hluti af fótboltaleiknum," sagði Davíð þegar hann var spurður út í Valgeir.
Hörður Ingi Gunnarsson spilaði í vinstri bakverði í fyrsta leik og hægri bakverði í dag. Kolbeinn Þórðarson spilaði í hægri bakverði í fyrsta leik og Kolbeinn Birgir Finnsson í vinstri bakverði í dag.
Ísland mætir Frakklandi í lokaleik riðilsins á miðvikudag. Möguleikarnir fyrir þann leik eru ekki miklir.
Athugasemdir