Allegri orðaður við Man Utd - Modric að framlengja við Real Madrid
banner
   fös 28. apríl 2023 23:59
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Pálmi Rafn: Mjög rómantísk hugsun
Situr svolítið í mér að síðasta leikurinn á ferlinum var án fjölskyldunnar í stúkunni.
Situr svolítið í mér að síðasta leikurinn á ferlinum var án fjölskyldunnar í stúkunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Pálmi Rafn Pálmason fékk félagaskipti frá KR í Völsung á lokadegi félagaskiptagluggans. Pálmi sagði eftir síðasta leik sinn á síðasta tímabili að skórnir væru komnir upp í hillu. Pálmi er 38 ára miðjumaður sem er í dag íþróttastjóri KR.

„Þetta eru bara svona skipti til að vera klár, mögulega verður það til þess að maður geti eitthvað aðstoðað móðurklúbbinn. Það á allt eftir að koma í ljós hvernig það passar. Það er býsna mikið í gangi hjá mér nú þegar, við sjáum hvað verður," sagði Pálmi við Fótbolta.net.

Kemur þetta frá þér að fyrra bragði eða voru einhverjir frá Völsungi búnir að hafa samband við þig?

„Það er stjórnarmaður í Völsungi sem er búinn að vera gera mig gjörsamlega geðveikan í allan vetur, það er óhætt að segja að þeir hafi verið í sambandi. Það var gott að leyfa þeim að svitna aðeins þangað til á síðasta degi."

„Nei, ég er í raun ekki horfa í neina dagsetningu sem einhvern möguleika á að spila. Ég á eftir að fara yfir þetta og heyra í þeim. Þetta snýst ekki bara um hvað ég vil, heldur líka hvað þeir vilja - hvort og hvenær þeir myndu vilja nota mig og hvort það passi fyrir mig. Þetta var fyrsta skrefið, ég er allavega löglegur ef til þess kemur."


Pálmi er uppalinn í Völsungi og steig þar sín fyrstu skref í meistaraflokki. Hann væri því að loka hringnum ef hann myndi spila með Völsungi í sumar.

„Það er svolítið þannig. Það situr svolítið í mér að síðasta leikurinn á ferlinum var án fjölskyldunnar í stúkunni. Það var ekki planið að Víkingur úti yrði síðasti leikurinn á ferlinum. Ég fór í bann þá, konan og strákarnir mínir voru bara heima í rólegheitunum."

„Núna hef ég möguleikann á að taka allra síðasta leikinn með þau í stúkunni, mömmu og pabba og fjölskyldu. Það er mjög rómantísk hugsun. Við verðum bara að sjá hvað setur."


Sjá einnig:
Pálmi Rafn ræddi við dómarann að leikslokum: Ógeðslega svekktur

Reynsluboltinn Baldur Sigurðsson lék með Völsungi í fyrra. Er Pálmi búinn að ræða við Baldur og veit Pálmi hvort Baldur ætli að taka slaginn aftur í sumar?

„Ég er búinn að heyra í honum hljóðið og mun að sjálfsögðu heyra í honum aftur hvort hann taki sjálfur einhverja leiki. En ég skal ekki svara fyrir hann, það á eftir að koma í ljós."

Pálmi var í leikmannahópi KR í einum leik í Reykjavíkurmótinu í vetur, þegar KR mætti ÍR. Hver er sagan á bak við það?

„Ég fékk að vera með á einni æfingu í aðdraganda leiksins. Ég var bara svo ógeðslega góður að ég komst í hópinn," sagði Pálmi léttur. „Ég var á bekknum einu sinni, en það var bara svona tilfallandi - vegna ótrúlegra gæða. Bara back-up ef það þyrfti," sagði Pálmi að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner