Man Utd og Liverpool meðal félaga sem vilja David - City reynir við Cambiaso - Romero eitt helsta skotmark Atletico
   mán 28. apríl 2025 11:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Við erum með bestu stuðningsmenn landsins"
Lengjudeildin
Jóhann Birnir Guðmundsson, þjálfari ÍR.
Jóhann Birnir Guðmundsson, þjálfari ÍR.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍR fagnar marki í fyrra.
ÍR fagnar marki í fyrra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Davíð Örvar kemur inn í teymið.
Davíð Örvar kemur inn í teymið.
Mynd: ÍR
ÍR er með öfluga stuðningsmenn.
ÍR er með öfluga stuðningsmenn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Tímabilið leggst mjög vel í okkur ÍR-inga. Við höfum unnið vel í vetur og erum að búa til lið með góðri blöndu af reynslumeiri mönnum og yngri leikmönnum sem eru að stíga sín fyrstu skref í meistaraflokksbolta," segir Jóhann Birnir Guðmundsson, þjálfari ÍR, í samtali við Fótbolta.net.

ÍR er spáð sjöunda sæti Lengjudeildarinnar í spá þjálfara og fyrirliða fyrir mótið.

„Að okkur sé spáð um miðja deild kemur ekki endilega á óvart. Við erum í smá umbreytingarfasa þar sem leikmannaveltan hjá okkur er töluverð frá síðasta tímabili og hópurinn nokkuð breyttur en það hefur gengið vel að slípa saman hópinn í vetur. Deildin er fyrirfram mjög jöfn og liðin sem ætla sér eitthvað þurfa að vera á tánum."

Við komum mörgum á óvart
Síðasta tímabil var frábært fyrir ÍR-inga. Þeir komu upp sem nýliðar en fóru í umspil um að komast upp um deild.

„Þegar ég horfi til baka á síðasta tímabil þá var það heilt yfir mjög ánægjulegt og lærdómsríkt. Við komum mörgum á óvart, hugsanlega sjálfum okkur eitthvað einnig með hversu litlu munaði hreinlega að við færum beint upp," segir Jóhann Birnir.

„Við vorum vel skiplagðir og náðum að skapa góða stemmingu í kringum liðið innan vallar sem utan, það gerði helling fyrir okkur. Það er nákvæmlega þetta sem gerir fótboltann svona skemmtilegan og við þurfum að viðhalda þessari nálgun hjá okkur í sumar."

Það urðu stórar breytingar í vetur þegar Árni Freyr Guðnason hætti hjá ÍR og tók við Fylki. Hann og Jói höfðu unnið vel saman síðustu árin í Breiðholtinu.

„Breytingar eru hluti af fótboltanum og ekkert kemur lengur á óvart í þessu. Við Árni náðum mjög vel saman alveg frá byrjun og það var erfitt að missa hann en ég náði í frábæran mann með mér, Davíð Óla, sem er mikill fótboltaheili og þar að auki þrælskemmtilegur náungi. Við höfum reynt að breyta ekki of miklu en innleitt aðeins nýjar áherslur sem leikmenn hafa tekið mjög vel í og mér finnst hafa myndast sterkur liðsandi í kringum verkefnið. Andrúmsloftið er jákvætt, heilbrigð samkeppni um stöður í liðinu og menn spenntir fyrir komandi sumri."

Breytingarnar á hópnum gengið vel
Það hefur gengið vel hjá ÍR á undirbúningstímabilinu þrátt fyrir breytingar í þjálfarateymi í þjálfarateymi og leikmannahóp.

„Í heild hefur gengið í vetur verið gott og við höfum sýnt ágætis stöðugleika. Við höfum náð nokkrum góðum úrslitum á móti sterkum liðum sem hefur gefið okkur sjálfstraust og við höfum einnig verið með nánast alla heila í mest allan vetur," segir þjálfari ÍR-inga.

„Breytingarnar á leikmannahópnum hafa gengið vel að mínu mati. Við vissum að lykilmenn frá síðasta tímabili væru að fara en teljum okkur hafa náð að styrkja liðið vel á móti. Staðan á hópnum er góð og ég er sáttur við hvernig hópurinn lítur út, mér finnst hann jafnari í ár og meiri samkeppni um stöður."

Lið sem erfitt er að mæta
Jóhann Birnir býst við því að Lengjudeildin verði jöfn og spennandi þetta sumarið, eins og í fyrra.

„Ég held að Lengjudeildin verði mjög jöfn í sumar eins og í fyrra. Ég býst við spennandi tímabili þar sem smáatriðin munu ráða miklu um lokastöðuna. Við ætlum okkur að vera lið sem er erfitt að mæta, líkt og í fyrra," segir hann.

„Markmið okkar fyrir sumarið eru fyrst og fremst að tryggja stöðugleika í deildinni. Ef við náum því þá ættum við að vera í baráttunni um að komast í úrslitakeppnina og þá getur allt gerst. Við viljum spila árangursríkan fótbolta, þróa ungu leikmennina okkar og byggja grunn að betra liði fyrir framtíðina hjá ÍR."

Eitthvað að lokum?

„Að lokum vil ég hvetja ÍR-inga til að mæta á völlinn og styðja við bakið á liðinu í sumar. Við erum með bestu stuðningsmenn landsins og stuðningurinn skiptir gríðarlega miklu máli."
Athugasemdir
banner
banner
banner