Unglingalandsliðsmaðurinn Ívar Arnbro Þórhallsson æfði á dögunum með danska úrvalsdeildarfélaginu Bröndby. Þetta kemur fram á heimasíðu KA.
Ívar er 18 ára gamall markvörður og uppalinn hjá KA en á síðustu leiktíð lék hann á láni hjá Hetti/Hugin í 2. deild.
Á dögunum fór hann í mikilvægt verkefni með U19 ára landsliðinu en hann meiddist rétt fyrir leikinn gegn Aserbaídsjan og missti því af þeim leik og öðrum leiknum gegn Moldóvu.
Hann lék síðasta leikinn gegn Írlandi, sem tapaðist 2-1, en Ísland var þegar búið að tryggja sæti sitt í milliriðla.
Eftir landsliðsverkefnið stoppaði Ívar við í Danmörku og tók þrjár æfingar með danska úrvalsdeildarfélaginu Bröndby áður en hann sneri aftur heim.
Ívar hefur farið reglulega út á reynslu síðustu ár. Á sama tíma á síðasta ári æfði hann með Hammarby í Svíþjóð og árið 2021 fór hann til Brommapojkarna og Djurgården.
Athugasemdir