Real Madrid sýnir Mac Allister áhuga - Greenwood eftirsóttur - Mourinho til Tyrklands? - Slot vill fá Silva
   mán 29. janúar 2024 11:17
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Að vera með þannig markvörð er ómetanlegt"
Hákon Rafn Valdimarsson.
Hákon Rafn Valdimarsson.
Mynd: Brentford
Hákon steig sín fyrstu skref með Gróttu.
Hákon steig sín fyrstu skref með Gróttu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristófer Orri Pétursson,
Kristófer Orri Pétursson,
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Bjarki Már Ólafsson (hér til vinstri) fékk Hákon í markið hjá Gróttu.
Bjarki Már Ólafsson (hér til vinstri) fékk Hákon í markið hjá Gróttu.
Mynd: Mohammed Ali
Gekk í raðir Brentford á dögunum.
Gekk í raðir Brentford á dögunum.
Mynd: Brentford
Fyrir liðna helgi gekk landsliðsmarkvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson í raðir enska úrvalsdeildarfélagsins Brentford frá Elfsborg í Svíþjóð.

Hákon er 22 ára og er hann uppalinn hjá Gróttu. Hann var keyptur til Elfsborg sumarið 2021 og lék hann sinn fyrsta leik þremur mánuðum eftir komu sína til Svíþjóðar. Hann var á síðasta ári valinn besti markvörðurinn í Svíþjóð.

Saga Hákons er mjög merkileg en segja má að hann hafi óvænt orðið markvörður í fótbolta. Hann byrjaði seint að æfa mark, á tíma þar sem hugur hans virtist vera meira í handboltanum. Kristófer Orri Pétursson, leikmaður Gróttu, kom inn í meistaraflokkinn á Seltjarnarnesi á sama tíma og er góður vinur Hákons. Fótbolti.net ræddi aðeins við hann um uppganginn hjá þessum hæfileikaríka markverði.

„Það er náttúrulega bara hálf súrrealískt, þetta 'syncar' inn þegar maður fer á fyrsta leikinn. Þetta er bara geggjað og ótrúlega gaman," segir Kristófer Orri í samtali við Fótbolta.net um skref Hákons til Brentford en hver eru hans fyrstu kynni af markverðinum?

„Það er sumarið 2017 þegar hann byrjar í fótbolta. Maður kannaðist við hann af Nesinu. Þarna er ég að byrja aftur í fótbolta eftir tveggja ára pásu og hann er að byrja á sama tíma í marki. Bjarki Már (Ólafsson) er að þjálfa okkur. Ég kynnist honum í gegnum það. Þarna vantaði markvörð í 2. flokki þegar ég er á elsta ári og hann er enn á 3. flokks aldri. Svo erum við mættir saman í meistaraflokk nokkrum mánuðum seinna."

Ekki margar svona sögur
Hákon var togaður aftur inn í fótboltann og fann sína leið sem markvörður. Kristófer segist hafa tekið eftir því fljótlega að Hákon gæti náð langt í marki.

„Það eru ekki margar svona sögur sem maður heyrir af. En maður sá það alveg þegar hann byrjar í marki að hann var góður strax. Það var ekki eins og hann var alveg á byrjunarreit þegar hann var að byrja í markinu. Það var nú eitthvað spunnið í hann," segir Kristófer.

„Við vorum alveg með allt í lagi 2. flokk þarna árið sem hann byrjar og Bjarki Már er auðvitað að þjálfa liðið. Hákon var geggjaður í löppunum og það var eitthvað sem Bjarki vildi mikið nota. Maður sá það strax að hann gæti náð langt en maður gerði sér kannski ekki grein fyrir því að það yrði svona langt."

Hákon bætti sig nánast með hverri æfingunni. Hann varð aðalmarkvörður í meistaraflokknum eftir að Óskar Hrafn Þorvaldsson og Halldór Árnason tóku við liðinu. Hann byrjar reyndar á bekknum en eftir að Jón Ívan Rivine meiddist, þá tók Hákon við keflinu. Hann fékk traustið og nýtti sér það til hins ítrasta. Hann hjálpaði Gróttu að komast upp í Bestu deildina á skömmum tíma.

„Maður tekur eftir bætingunum hjá honum en þetta gerist hratt hjá honum. Hann er á þeim aldri þar sem þú ert að verða betri og betri með hverri æfingunni. Hann fær fyrsta leikinn 2017 og svo þegar Óskar Hrafn tekur við, þá er hann ekki í byrjunarliðinu fyrst en kemur svo inn. Hans leikstíll hentaði okkur samt fullkomlega. Hann er einn af þeim aðilum sem pælir ekki mikið í því þegar hann gerir mistök. Hann er mjög fljótur að læra af þeim. Hann er með sturlaðan metnað og maður sá hratt miklar bætingar hjá honum."

Hákon er mjög sterkur andlega og var fljótur að jafna sig á því þegar hann gerði mistök.

„Hausinn á honum er fullkominn fyrir það að vera atvinnumaður. Hann er mjög fljótur að læra og aðlagast því umhverfi sem hann er settur í sem ég held að hjálpi honum gríðarlega mikið."

Að vera með svona markvörð er bara geggjað
Kristófer segir að Hákon sé einn af sínum bestu vinum og það hafi verið frábært að fylgjast með hans þróun á síðustu árum. Hann fór úr því að spila í Lengjudeildinni með Gróttu í það að verða besti markvörðurinn í Svíþjóð. Núna er hann svo kominn í ensku úrvalsdeildina.

„Hann fer frá okkur um mitt sumarið 2021 og er strax dottinn inn í byrjunarliðið þremur mánuðum seinna hjá Elfsborg. Maður fylgdist með honum gíraður við skjáinn og ég hef reynt að horfa á leikina hjá honum eins mikið og ég get. Ég fór á einn leik úti hjá honum á síðasta ári. Þegar maður fór út á leiki - ég er kannski hlutdrægur - þá sér maður að hann var langbestur í liðinu. Ekki með hann í markinu, þá held ég að þeir hefðu ekki endað svona ofarlega," segir Kristófer en Elfsborg endaði í öðru sæti sænsku deildarinnar á síðasta ári.

„Þetta gerist mjög hratt hjá honum. Það er tvö og hálft ár síðan við í Gróttu vorum að sprikla með honum og núna er hann mættur í ensku úrvalsdeildina. Þetta er náttúrulega bara geggjuð saga."

Kristófer segir það þægilega tilfinningu að vera í sama liði og Hákon. Hann er auðvitað frábær að spila boltanum frá sér en er einnig gríðarlega öflugur í loftinu.

„Að vera með svona markvörð í markinu er bara geggjað. Mér finnst líka fólk fyrst núna vera að taka eftir því hvað hann er sjúklega góður í loftinu. Það er eiginlega það sem mér finnst hvað þægilegast. Hann tekur nánast allar fyrirgjafir og að vera með þannig markvörð er ómetanlegt. Í þokkabót er hann geggjaður í fótunum," segir Kristófer en það er auðvitað spennandi tilhugsun að sjá vin sinn spila í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta er mjög spennandi. Ég er ekki enn búinn að bóka miða á fyrsta Brentford leikinn en ég og bróðir minn erum að fara á City - Arsenal einhvern tímann í lok mars. Kannski hoppar maður yfir og reynir að púsla því saman. Maður hoppar út eins fljótt og maður getur."

„Ég held að ef hann sýni það sem ég veit að hann getur, að þá verði hann kominn í liðið fyrr en síðar. Þetta verður stuð," segir Kristófer að lokum. Hann fagnar því auðvitað líka að Hákon sé búinn að vinna sér sæti í A-landsliðinu en líklegt er að hann muni byrja þann mikilvæga leik gegn Ísrael. Það er áhugaverð tilhugsun að Grótta muni mögulega eiga tvo fulltrúa í byrjunarliðinu þar; Hákon Rafn og Orra Stein Óskarsson. Það er merki um það góða starf sem hefur verið unnið á Seltjarnarnesi.
Athugasemdir
banner
banner
banner