Fram er í markmannsleit fyrir gluggalok þar sem Ólafur Íshólm Ólafsson yfirgaf félagið um helgina og samdi við Leikni. Ólafur, sem hafði verið aðalmarkmaður Fram í lengri tíma, var ósáttur með stöðu sína eftir að hafa átt að vera á bekknum í deildarleiknum gegn ÍBV, og endaði á að fara ekki með til Vestmannaeyja.
Viktor Freyr Sigurðsson er í dag aðalmarkmaður Fram og Þorsteinn Örn Kjartansson, sem er í 2. flokki, er varamarkmaður.
Viktor Freyr Sigurðsson er í dag aðalmarkmaður Fram og Þorsteinn Örn Kjartansson, sem er í 2. flokki, er varamarkmaður.
Verða að fá markmann
Rúnar Kristinsson, þjálfari Fram, var spurður út í markmannsmálin í viðtali eftir leikinn gegn Aftureldingu í gær.
„Við erum í leit að markmanni til að bæta í leikmannahópinn okkar til að hafa fleiri markmenn á æfingu. Við erum bara með tvo eins og staðan er og annar er í 2. flokki, hann þarf að spila leiki þar. Við þurfum að geta æft með tvo markmenn, þurfum að fá einn í viðbót inn í teymið og erum að leita logandi ljósi að einhverjum möguleika í því. Við erum búnir að hringja í marga, tékka á mörgum. Því miður eru flestallir markmenn fastir einhvers staðar og menn ekki tilbúnir að lána menn, það eru ekki mörg lið sem eru með þrjá markmenn og geta misst einn. Við erum í smá neyð núna, höfum til gluggaloka til að bjarga okkur. Við sjáum hvað setur," sagði Rúnar við Fótbolta.net.
Fékk símtal frá Rúnari en gat ekki sagt já
Í viðtali við Stöð 2 Sport sagði Rúnar að hann hefði heyrt í sínum fyrrum leikmanni, Hannesi Þór Halldórssyni. Fótbolti.net ræddi við Hannes í dag.
„Það er ekki séns af því að ég er að jafna mig á skíðabyltu, lenti í smá slysi og þurfti að fara í aðgerð. Ég ætti enga möguleika á að gera neitt og er ekkert að æfa. Þetta var bara stutt samtal, en ég var ánægður að fá símtalið og þetta kitlaði alveg. Ég kunni að meta það og hefði kannski hugsað þetta við einhverjar aðstæður, en það er bara ekki í boði núna."
„Þetta kitlaði alveg aðeins, ég og Rúnar eigum okkar sögu og mér þykir vænt um að hann hafi hugsað til mín," segir Hannes.
Hannes er nýorðinn 41 árs. Hann er landsleikjahæsti markmaður í sögu Íslands og spilaði síðast sumarið 2021 með Val. Hann varð Íslandsmeistari með KR 2011 og 2013 og Val 2020. Hann lék með Fram á árunum 2007-2010.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er möguleiki á því að Bjarki Arnaldarson, markmaður Leiknis, færi sig yfir í Úlfarsárdalinn.
Athugasemdir