Ásmundur Arnarsson, þjálfari Fjölnis, var svekktur eftir 2-0 tap gegn ÍBV í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins í dag.
Fjölnismenn byrjuðu af krafti gegn Eyjamönnum en lentu undir um miðjan fyrri hálfleikinn og hafði það gríðarleg áhrif á liðið.
„Mér fannst við reyndar framan af betri í þessum leik og fengum ágætis möguleika og góð færi í fyrri hálfleik á meðan þeir voru lítið að skapa sér. Við töpum boltanum illa og þeir refsa okkur illa fyrir það og klára vel. Þeir stíga upp, við missum móðinn og dettum niður og eftir það fannst mér vanta kraft í okkur," sagði Ási við Fótbolta.net.
„Mér fannst við vera aðeins undir í seinni hálfleik og vorum kannski ekki að fá mörg færi á okkur. Þeir skora seinna markið eftir horn þar sem við gleymum okkur aðeins en að öðru leiti var lítið í spilunum og daufur leikur og ég er svolítið svekktur með það að hafa ekki getað sett meiri kraft í þetta og gefið þeim meiri leik."
„Það er fyrri hálfleikurinn sem situr í þar sem við hefðum getað nýtt möguleika okkar betur."
„Það var gott færi til að komast lengra og við erum alveg með lið sem við gætum á góðum degi unnið Eyjamenn en þetta var ekki okkar dagur í dag," sagði hann í lokin,
Athugasemdir






















