„Hún er bara mjög ljúf. Að skora fjögur mörk, ekki oft sem að við erum búnir að gera það - eða bara skora mörk yfir höfuð. Þannig að það var bara ljúft að skora fjögur mörk og vinna leikinn sérstaklega,'' sagði Hallgrímur Mar Steingrímsson þegar hann var spurður út í tilfinninguna sem að fylgdi 4-2 sigri á Fram í Bestu-deild karla í dag.
Lestu um leikinn: KA 4 - 2 Fram
Var ekki notalegt að geta aðeins svarað neikvæðu umtali eftir dræmt gengi í undanförnum leikjum?
„Jú. Þessi gagnrýni hefur kannski alveg átt rétt á sér. Við höfum ekki verið að spila nógu vel, eða allavega ekki náð í úrslitin sem við ætluðum okkur fyrir mót. En bara geggjað að fá sigur og vonandi komum við okkur á rétta braut.''
Leikurinn var býsna opinn, enda sex mörk skoruð og var kannski full opinn, að mati Hallgríms.
„Mér fannst við full opnir! Það er kannski af því að við vorum meira að hugsa eitthvað fram á við og að reyna að skapa eitthvað meira. En þeir eru náttúrulega líka bara með geggjað lið. Tveir uppáhalds leikmennirnir mínir í deildinni - Tiago og Fred, þannig að auðvitað ná þeir alltaf að skapa eitthvað. Þeir eru búnir að skapa á móti öllum liðum, en þetta var smá fram og til baka og maður var orðinn smá þreyttur í lokin,'' sagði Hallgrímur Mar.
Hallgrímur segir að liðið sé engan veginn á þeim buxunum að ætla að hengja haus yfir vondu gengi gegn bestu liðum deildarinnar og að nóg sé eftir af mótinu. Aðspurður hvort að það eigi bara að grípa í "einn leikur í einu" klisjuna, þá var svarið einfalt: „Já, næsti leikur. Sigur bara.''
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.