Amorim, Frank, Ten Hag, De Bruyne, Isak, Olise, Gyökeres og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 30. apríl 2021 10:45
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Sitjum ekki við sama borð á veturna en látum það ekki stoppa okkur"
Lengjudeildin
Heiðar Birnir var ráðinn þjálfari Vestra eftir síðustu leiktíð.
Heiðar Birnir var ráðinn þjálfari Vestra eftir síðustu leiktíð.
Mynd: Vestri
Vestra er spáð sjötta sæti í sumar.
Vestra er spáð sjötta sæti í sumar.
Mynd: Haukur Gunnarsson
Heiðar og Bjarni Jóhannsson á hliðarlínunni á síðustu leiktíð.
Heiðar og Bjarni Jóhannsson á hliðarlínunni á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sammi formaður er í þessu af lífi og sál. Hann hefur talað um að stefnan sé að koma liðinu upp í efstu deild og Heiðar tekur undir það.
Sammi formaður er í þessu af lífi og sál. Hann hefur talað um að stefnan sé að koma liðinu upp í efstu deild og Heiðar tekur undir það.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik Vestra og Leiknis síðasta sumar fyrir vestan.
Úr leik Vestra og Leiknis síðasta sumar fyrir vestan.
Mynd: Haukur Gunnarsson
'Við náum markmiðum okkar með því að spila vel'
'Við náum markmiðum okkar með því að spila vel'
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
„Spáin kemur ekkert á óvart miðað við hvernig undirbúningstímabilið hefur verið," segir Heiðar Birnir Torleifsson, þjálfari Vestra, í samtali við Fótbolta.net.

Vestra er spáð sjötta sæti í Lengjudeildinni í sumar.

„Það hefur verið smá bras á okkur á undirbúningstímabilinu, það hefur verið erfitt. Þetta kemur ekkert á óvart."

Æfa í reiðhöllinni fyrir vestan
Vetrarmánuðirnir eru erfiðir fyrir Vestra þar sem æfingaaðstaðan fyrir vestan á veturna er lítil sem engin.

„Undirbúningstímabilið hefur verið erfitt æfingalega séð en það er ekkert nýtt fyrir vestan. Við erum ekki með neina æfingaaðstöðu yfir vetrarmánuðina. Við vorum að æfa í reiðhöll fyrr í vetur, á mölinni. Það er enginn í því. Svo er óupphitað gervigras sem er ekki hægt að nota. Þetta er ekkert nýtt, svona er þetta búið að vera alltaf. Við höfum engu að síður æft vel."

„Það er alltaf verið að tala um að bæta aðstöðuna, alltaf einhverjar meiningar á lofti en enn sem komið er ekkert fast í hendi, því miður."

Hópurinn þrískiptur
Á undirbúningstímabilinu hefur leikmannahópurinn verið þrískiptur og tengingar við önnur verið nýttar.

„Við höfum reynt að nýta helgarnar, sérstaklega síðustu tvær, þrjár helgar fyrir sunnan. Við höfum tekið langar helgar. Fylkismenn hafa verið okkur innan handar þar og við þökkum þeim fyrir það, að hafa fengið að æfa þar. Svo hefur þetta verið sandurinn í Bolungarvík og allt það. Við erum byrjaðir að æfa úti núna þannig að þetta lítur miklu betur út."

„Þetta er þannig yfir vetrarmánuðina að leikmannahópurinn er þrískiptur. Leikmenn eru hér, svo eru leikmenn fyrir sunnan og leikmenn erlendis. Varðandi leikmennina fyrir sunnan, þá höfum við verið heppnir að eiga góða vini í ýmsum félögum. Valsmenn, Fylkismenn, Víkingar, Leiknismenn, Þróttur Vogum og Njarðvík hafa tekið þessa leikmenn að sér og þeir hafa fengið að æfa með þeim. Við erum svo með Fannar Karvel hjá Spörtu sem sér um okkar styrktarþjálfun og Íslendingarnir fyrir sunnan voru í prógrammi hjá honum. Svo mættu menn í leiki með okkur. Þeir sem voru fyrir vestan voru í prógrammi hérna, mest í líkamlegu prógrammi," segir Heiðar.

Leikmennirnir eru ekki enn allir komnir saman og það hefur nokkuð verið um meiðsli á undirbúningstímabilinu. „Það eru ekki allir komnir saman. Við erum enn með þrjá menn fyrir sunnan og svo eigum einn erlendan leikmann sem kemur seinna. Það verða ekki allir komnir fyrir mót, þannig er staðan."

„Við höfum nýtt síðustu tvær helgar mjög vel í taktík og höfum náð nokkrum æfingum í því. Það hafa nokkrir lent í alvarlegum meiðslum í vetur, slysum í rauninni. Spænski hafsentinn (Chechu Meneses) okkar fór úr axlarlið gegn Keflavík í febrúar, Friðrik Þórir (Hjaltason) sleit hásin á æfingu hjá Leikni, og svona. Það hefur haft áhrif líka. Menn eru að skríða saman þannig að þessir dagar núna eru mjög mikilvægir fyrir okkur. Við reynum að nýta þá eins vel og við getum."

Fékk spurningu frá Bjarna Jó
Heiðar var aðstoðarþjálfari Bjarna Jóhannssonar í fyrra en Bjarni ákvað að hætta eftir síðustu leiktíð. Hver var aðdragandinn að því að Heiðar var ráðinn sem aðalþjálfari?

„Aðdragandinn var bara þannig að þegar Bjarni Jóhannsson, vinur minn, sagði mér að hann ætlaði að hætta þá spurði hann mig bara hvort ég hefði ekki áhuga á að taka þetta. Það var ekki flóknara en það. Svo fór ég í viðræður við Vestra og náðum saman fljótlega eftir það. Það var ekkert öðruvísi."

„Þetta er mjög spennandi verkefni. Við erum með mjög flottan leikmannahóp og það hefur verið mikið lagt í hann. Við lítum betur út með hverjum deginum sem líður, og það er mikil og góð stemning í hópnum. Þrátt fyrir þetta aðstöðuleysi og að veturinn hafi verið erfiður þá erum við mjög bjartsýnir fyrir sumarið og ætlum okkur stóra hluti."

Heiðar hefur mikla reynslu af barna- og unglingaþjálfun. Hann hefur verið yfirþjálfari Coerver Coaching hér á landi en starfið hjá Vestra verður hans annað aðalþjálfarastarf í meistaraflokki. Heiðar þjálfaði B71 í Færeyjum 2019.

„Ég er búinn að þjálfa síðan 1996 og hef verið fyrst og fremst í barna- og unglingaþjálfun. Ég var yfirþjálfari hjá mörgum félögum, eins og KR, Keflavík, Þrótti og fleiri félögum. Ég hef verið yfirþjálfari Coerver Coaching á Íslandi síðan við byrjuðum með það 2013. Ég hef verið með námskeið, einkaþjálfanir, unnið mikið með félögum og líka verið að þjálfa þjálfara í gegnum það. Ég er búinn að vinna bæði á Íslandi og erlendis, aðallega á norðurlöndunum, í kringum það allt saman."

„Svo var ég í Færeyjum 2019 að þjálfa B71. Það var mjög gaman. Það var gott að vera í Færeyjum. Fjölskyldan var ekki með mér og það var erfitt þannig en það var skemmtilegur og lærdómsríkur tími," segir Heiðar.

Mikill metnaður fyrir vestan
Það er mikill metnaður innan félagsins og draumurinn er að koma liðinu upp í efstu deild. Samúel Samúelsson, formaðurinn sem leggur líf og sál í verkefnið, hefur talað um það að stefnan sé að koma Vestra upp í ár.

„Þess vegna tók ég þetta að mér," segir Heiðar þegar hann er spurður út í ummæli formannsins. „Það er bara svoleiðis. Við stefnum alltaf hátt hérna fyrir vestan og við ætlum okkur stóra hluti í sumar. Það er engin spurning. Við höfum verið að vinna að því. Þó við sitjum ekki við sama borð og aðrir yfir vetrarmánuðina, þá látum við það ekki stoppa okkur."

„Ég er mjög ánægður með hópinn. Við lögðum mikið í að finna réttu mennina og finna rétta jafnvægið. Ég er á því að okkur hafi tekist það og ég er mjög ánægður með hópinn. Dönsku gaurarnir eru mjög flottir, eins og allir þessir leikmenn. Hópurinn er klár og það er enginn frekari liðsstyrkur væntanlegur," segir Heiðar en félagið hefur sótt öfluga erlenda leikmenn í vetur.

Náum markmiðum með því að spila vel
Eftir spjallið við þjálfara Vestra er það ljóst að markmiðin eru skýr en hvernig nást þessi markmið?

„Við náum markmiðum okkar með því að spila vel," segir Heiðar Birnir og bætir við: „Skilaboð mín til stuðningsfólks Vestra eru: Verið þolinmóð en spennt fyrir sumrinu."
Athugasemdir
banner
banner
banner