Liverpool ætlar að fá þrjá - Chelsea vill Rogers - Ancelotti að taka við Brasilíu
   mið 30. apríl 2025 15:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
„Ég hef engar áhyggjur af Gylfa"
Gylfi eftir leikinn gegn Val.
Gylfi eftir leikinn gegn Val.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Gylfi Þór Sigurðsson var keyptur til Víkings frá Val í febrúar og hefur verið í byrjunarliði Víkings í fjórum af fimm fyrstu leikjum tímabilsins. Hann missti af einum leik þar sem hann tók út leikbann eftir að hafa fengið rautt spjald.

Gylfi hefur fengið talsverða gagnrýni fyrir spilamennsku sína í upphafi móts. Fótbolti.net ræddi í dag við Kára Árnason, yfirmann fótboltamála hjá Víkingi, og var hann spurður út í Gylfa.

„Það er búið að mann-dekka hann, það er ekkert auðvelt að spila með frakka (andstæðingur sem hugsar einungis um að dekka þig) á sér í flestum leikjum. Ég veit alveg hvaða mann hann geymir og auðvitað vill maður sjá Gylfa upp við markið að skora og leggja upp mörk," segir Kári.

„En liðið verður líka að finna svæðin sem opnast þegar verið er að dekka hann. Það er bara tímaspursmál hvenær við finnum þau svæði, þau voru svo sannarlega til staðar á móti Val, við bara vorum ekki að finna þau nægilega vel."

„Ég hef engar áhyggjur af Gylfa,"
segir Kári.

Hann var líka spurður út í Víkingsliðið sem hefur ekki unnið í síðustu þremur leikjum.

„Síðustu leikir hafa ekkert verið sannfærandi, það er ekki hægt að fara í felur með það, en þetta er ekkert sem ég hef áhyggjur af. Við erum með það mikinn gæðahóp að þetta snýst bara aðeins um að stilla saman strengi. Við erum með mikið af nýjum leikmönnum og þeir þurfa að læra inn á okkar leið til að spila. Þetta er ekki eitthvað sem ég hef langtíma áhyggjur af."

„Við áttum nóg af slæmum leikjum í fyrra líka, en úrslitin fylgdu okkur oftast. Það er bara tímaspursmál hvenær frammistaðan kemur. Ég held að þessi ÍBV leikur úti hafi dregið svolítið úr sjálfstrausti, við byrjuðum mótið vel en svo hafa komið nokkrir leikir. Mér finnst við pínu þurfa að taka úr handbremsu, finnst við vera spila eins og við séum hræddir við að tapa. Við þurfum að taka okkur úr handbremsu og spila svolítið frjálslega, við erum með það gott lið."


Næsti leikur Víkings verður gegn Fram næsta mánudagskvöld.
Innkastið - Enginn skilaréttur!
Athugasemdir
banner