lau 30. júlí 2022 16:01
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deildin: Stjarnan stöðvaði sigurgöngu Víkings
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Það fóru tveir leikir fram í Bestu deild karla í dag og lauk þeim báðum með 2-2 jafntefli þar sem bæði jöfnunarmörkin voru skoruð á 86. mínútu.


Stjarnan fékk Íslandsmeistara Víkings R. í heimsókn í Garðabæinn og úr varð hörkuleikur. Víkingar voru betri í fyrri hálfleik og óheppnir að skora ekki en markið kom í upphafi síðari hálfleiks þegar Nikolaj Hansen skallaði boltann í netið eftir hornspyrnu.

Skömmu síðar fékk Erlingur Agnarsson tækifæri til að tvöfalda forystu Víkinga af vítapunktinum en hann skaut yfir markið. Haraldur Björnsson markvörður heimamanna var himinlifandi eftir að hafa fengið vítaspyrnuna dæmda á sig.

Garðbæingar tóku að sækja eftir vítaspyrnuklúðrið og jöfnuðu metin tíu mínútum síðar þegar Oliver Ekroth setti boltann klaufalega í eigið net eftir lága fyrirgjöf. Óskar Örn Hauksson átti stóran þátt í að opna vörn Víkinga í flottri sókn.

Það liðu þó ekki fimm mínútur þar til Víkingur tók forystuna á ný. Í þetta sinn skoraði Birnir Snær Ingason með flottu skoti utan teigs í kjölfar hornspyrnu en Haraldur hefði líklegast mátt gera meira til að stöðva boltann.

Staðan orðin 1-2 en rússíbanareiðin ekki búin því heimamenn fengu vítaspyrnu á lokamínútunum eftir misskilning milli Oliver Ekroth og Ingvars Jónssonar í öftustu línu Víkings. Misskilningurinn varð til þess að Ingvar braut af sér innan vítateigs og skoraði Emil Atlason af punktinum á 86. mínútu.

Lokatölur 2-2 í fjörugum leik og er þetta skellur fyrir Víking sem hefði getað saxað á forystu Breiðabliks á toppi deildarinnar með sigri. Stjarnan er áfram í fjórða sæti, fimm stigum eftir Víkingi.

Víkingur hafði unnið sex leiki í röð fyrir jafnteflið í dag.

Lestu um leikinn

Stjarnan 2 - 2 Víkingur R.
 0-1 Nikolaj Hansen ('49)
 0-1 Erlingur Agnarsson ('55, misnotað víti)
 1-1 Oliver Ekroth ('66, sjálfsmark)
 1-2 Birnir Snær Ingason ('71)
 2-2 Emil Atlason ('86, víti)

ÍBV tók þá á móti Keflavík í Þjóðhátíðarleiknum og þar var einnig mikil skemmtun þrátt fyrir grimman vind. Fyrsta mark leiksins leit dagsins ljós strax á níundu mínútu þegar Arnar Breki Gunnarsson skoraði laglegt mark með föstu skoti við vítateigslínuna.

Magnús Þór Magnússon fyrirliði Keflavíkur fór meiddur af velli skömmu síðar. Eyjamenn voru með stjórn á leiknum en Keflvíkingar urðu betri er tók að líða á hálfleikinn og gerði Nacho Heras jöfnunarmark fyrir leikhlé með skalla eftir aukaspyrnu.

Seinni hálfleikurinn byrjaði rólega en Andri Rúnar Bjarnason hleypti heldur betur lífi í hann með stórkostlegu marki beint úr aukaspyrnu. Rúnar Gissurarson stóð kyrr í marki Keflvíkinga sem leituðu nú að öðru jöfnunarmarki.

Markið kom eftir nokkrar tilraunir. Keflavík fékk hornspyrnu, á 86. mínútu alveg eins og vítaspyrnan í Garðabæ, og fór boltinn í gegnum mikla þvögu áður en aðstoðardómarinn lyfti flagginu upp til að tilkynna mark. Boltinn fór yfir línuna og virðist Nacho Heras hafa tekist að koma honum inn. 

Joey Gibbs kom inn af bekknum og fékk dauðafæri á lokamínútum leiksins en Guðjón Orri Sigurjónsson var snöggur að koma út á móti og loka markinu. Í uppbótartíma komst Adam Ægir einnig í dauðafæri en virtist ekki átta sig og missti af tækifærinu.

Lestu um leikinn

ÍBV 2 - 2 Keflavík
1-0 Arnar Breki Gunnarsson ('9)
1-1 Nacho Heras ('43)
2-1 Andri Rúnar Bjarnason ('66)
2-2 Nacho Heras ('86)


Athugasemdir
banner
banner
banner