FC Kaupmannahöfn er í ágætis möguleika á því að komast upp úr riðli sínum í Meistaradeildinni þegar ein umferð er eftir af riðlakeppninni.
Danmerkurmeistararnir gerðu markalaust jafntefli gegn þýska stórveldinu Bayern München á útivelli í gær. Áður í riðlinum höfðu þeir unnið sigur á Manchester United.
Jacob Neestrup, fyrrum leikmaður FH, stýrir FCK en hann var gríðarlega ánægður með leikinn í gærkvöldi. Hann segir úrslitin gegn Bayern ein þau stærstu og bestu í sögu danska félagsins. Bayern hafði unnið 17 leiki í röð í riðlakeppni Meistaradeildarinnar fyrir leikinn í gær.
„Við vorum að mæta einu af tveimur bestu liðum í heimi," sagði Neestrup eftir leikinn. „Þeir eru bestir ásamt kannski Manchester City. Þetta eru risastór úrslit."
Með sigri gegn Galatasaray í lokaumferðinni, þá fer FCK áfram í 16-liða úrslit Meistaradeildarinnar í annað sinn í sögu félagsins.
Athugasemdir