mið 31. mars 2021 17:17
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Ófyrirgefanlegt" að menn séu ekki að vinna vinnuna sína
Icelandair
Kolbeinn gleymdi Guendouzi.
Kolbeinn gleymdi Guendouzi.
Mynd: Fótbolti.net - Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Það var rætt um mörkin sem Frakkland skoraði í fyrri hálfleik gegn Íslandi í riðlakeppni U21 Evrópumótsins í EM stofunni á RÚV.

Staðan er 2-0 í hálfleik en mörk Frakka skoruðu Matteo Guendouzi og Odsonne Edouard.

Í fyrra markinu fékk Guendouzi boltann óvaldaður á teignum og skoraði auðvelt mark. Kolbeinn Þórðarson var að elta hann til baka en gerði það ekki almennilega.

„Kolbeinn skilar sér ekki í varnarhlutverkið og fyrir vikið fyrir Guendouzi bara frítt hlaup einn í miðjum teignum. Það hefðu allir getað skorað þarna, þú hefðir getað skorað þarna Óskar," sagði Tómas Ingi Tómasson við Óskar Hrafn Þorvaldsson.

„Kolbeinn er með Guendouzi við hliðina á sér en horfir svolítið mikið á boltann. Svo fer boltinn upp og bilið á milli þeirra breikkar alltaf. Kolbeinn á náttúrulega að spretta þarna og koma sér í varnarstöðu. Svo þegar markið kemur er hann enn lengra frá honum."

„Þetta er þriðja eða fjórða markið sem við fáum okkur út af því að menn eru ekki að vinna vinnuna sína. Mér finnst það ófyrirgefanlegt. Við erum ekki jafngóðir í fótbolta og við þurfum að gera meira en hinir. Þetta fannst mér ofboðslega sorglegt því þetta byrjaði ágætlega."

Ísland er að spila með fimm manna vörn og Finnur Tómas Pálmason er í hjarta hennar. Það var einhver misskilningur í seinna markinu.

„Mér finnst ekki líklegt að Finnur Tómas hafi spilað mjög oft í miðju þriggja manna varnar. Þarna hefði maður viljað sjá hann ekki sleppa honum. Hann hleypur á bak við Ara en Finnur Tómas þarf að klára þetta. Þetta er frábær afgreiðsla og allt það en heldur auðvelt," sagði Óskar Hrafn, þjálfari Breiðablik.

„Það er rosa auðvelt að sýna eftir þessa þrjá leiki hvað gerist ef þú eltir ekki manninn þinn inn í teig, ef þú klárar ekki hlaupin þín. Alex Þór og Stefán Teitur fengu að kynnast því gegn Rússum og núna Kolbeinn sem mér finnst hafa verið ljómandi fínn í fyrri hálfleiknum. Hann er betri að verjast fram á við en aftur á bak. Þetta fer í reynslubankann," sagði Óskar.

Hægt er að sjá mörkin úr fyrri hálfleiknum hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner
banner