,,Við komum ekkert á óvart, við erum með hörkulið og erum eiginlega svekktir að hafa ekki sótt þrjú stig í dag. Þessi jafntefli fara að telja þegar við förum að vinna leikina og það styttist alltaf í næsta sigurleik, hann verður líklega í næstu umferð," sagði kokhraustur markvörður Fylkis og sögukennarinn, Bjarni Þórður Halldórsson.
Lestu um leikinn: ÍBV 1 - 1 Fylkir
Fylkismenn voru ekki par sáttir með markið sem Víðir Þorvarðarsson skoraði fyrir ÍBV í fyrri hálfleik, og þá helst Bjarni Þórður, þegar undirritaður spurði Bjarna hvort um hafi verið að ræða óverjandi skot hafði Bjarni þetta að segja,
,,Þú verður eiginlega að spyrja dómarann, þeir voru að velta því fyrir sér hvort þetta hafi verið rangstæða. Skotið var langt fyrir utan og það stóð allur pakkinn fyrir framan mig, Eyjamennirnir voru fyrir innan og ég sá boltann svo seint og hann fer í gegnum allan pakkann, og ég vil meina að þetta hafi verið rangstæða því þeir trufluðu mig, en ég hrósa Víði Þorvarðarssyni vini mínum fyrir nánast óverjandi skot," sagði Bjarni, en Víðir og Bjarni léku eitt sinn saman með Stjörnunni.
Viðtalið í heild sinni við Bjarna Þórð er hægt að sjá í sjónvarpinu hér að ofan.
Athugasemdir