Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, var að vonum ánægður eftir sigur sinna manna gegn ÍBV í kvöld. Eftir sigurinn er FH nú með 7 stiga forskot á KR á toppi Pepsi-deildar karla. Hann vildi þó ekki fagna sigri strax: "Nei það er langt í frá, það eru fimm umferðir eftir og næst er erfiður leikur gegn Keflavík sem hafa verið að spila vel í sumar."
FH mættu afar grimmir til leiks og náðu að setja mikla pressu á varnarmenn ÍBV sem skilaði sér í marki snemma leiks: "Fyrri hálfleik þá komum við út og settum þá undir mikla pressu því að þeir eru mjög vel spilandi lið og geta látið boltann ganga í fáum snertingum og við náðum að loka á það."
Björn Daníel Sverrisson og Kristján Gauti skoruðu mörk FH í kvöld og eins spiluðu Einar Karl Ingvason og Pétur Viðarsson vel í kvöld en allir þessir leikmenn eru uppaldir FH-ingar og fremur ungir að árum. "Það hefur alltaf verið hjá FH, að hafa reynslubolta í bland við unga leikmenn og ungu leikmennirnir sem hafa spilað í sumar hafa staðið sig vel."
"Framundan er æfing á morgun, koma okkur niður á jörðina og byrja að einbeita okkur að erfiðum leik á móti Keflavík."
Athugasemdir























