,,Þetta eru ekki margir leikir þannig að það er eins gott að byrja strax og fá stig í hús," segir Grétar Rafn Steinsson leikmaður íslenska landsliðsins en liðið mætir Norðmönnum í fyrsta leiknum í undankeppni HM á Laugardalsvelli á föstudagkvöld.
,,Ég held að við séum með mjög gott lið í höndunum en við erum að spila á móti mjög góðu norsku liði. Norska liðið er eitthvað breytt, þeir eru ekki með Carew, Pedersen og Huseklepp. Það þarf að nýta vikuna vel í að skoða andstæðinginn, sjá kosti og galla og hvort við getum ekki nýtt okkur það."
Undankeppnin hefst af krafti því íslenska liðið mætir Kýpur á útivelli í næstu viku. Grétar segir erfitt að ákveða markmið fyrir keppnina strax.
,,Ég held að það sé best að ræða markmið eftir fyrstu tvo leikina. Ef það gengur vel í fyrstu tveimur leikjunum er hægt að hafa háleit markmið en ef það gengur illa þurfum við að hafa okkur alla við til að ná ofarlega í riðlinum."
Miðasala á leikinn er í gangi á midi.is og Grétar vonar að landsmenn fjölmenni á völlinn.
,,Þetta verður hörkuleikur og það þarf stuðning til að ná úrslitum. Ég vona innilega að fólk taki við sér og mæti á völlinn á föstudag."
Athugasemdir























