,,Þetta er yndislegt, helst að taka þetta á hverju ári. Við erum búnir að vinna B-liðin líka tvö ár af síðustu þremur svo þetta er búið að vera frábært," sagði Ingvar Jónsson þjálfari 2. flokks FH sem varð Íslandsmeistari þriðja árið í röð í kvöld.
,,Leikurinn var erfiður, völlurinn var þungur og blautur og við erum með lykilmann í leikbanni og Kristján Gauta á bekknum, sem hefði verið fínt að geta verið með frá byrjun. Svo lendum við undir en skorum svo frábært jöfnunarmark sem kveikti í mönnum. Það má segja að mörkin hafi öll verið frekar glæsilegt og hefðu getað verið fleiri á báða bóga."
,,Við vorum að elta Blikana á tímabili og töpuðum tveimur leikjum um miðbikið. Ég hef ekki töluna á því en ætli við séum ekki búnir að vinna 6, 7, 8 leiki í röð. Ég treysti á að Blikarnir myndu misstíga sig sem og þeir gerðu þegar þeir gerðu jafntefli við KR. Þá komumst við yfir og ætluðum sannarlega að klára þetta."
Meistarflokkur karla spilaði við ÍA í gær en Ingvar tefldi fram tveimur leikmönnum úr þeim leik, Einari Karli Ingvarssyni og Emil Pálssyni í byrjunarliði auk þess sem Kristján Gauti Emilsson spilaði hluta eftir að hafa komið inná sem varamaður. En er auðvelt að díla við Heimir Guðjónsson þjálfara meistaraflokks um svona mál?
,,Við reynum að gera gott úr þessu en það er ekkert auðvelt að díla við Heimi. Ég hefði viljað hafa Kristján Gauta frá byrjun en það er meistaraflokksleikur strax á sunnudaginn aftur.Auðvitað er þetta mikið fyrir strák eins og Einar Karl að spila 85 mínútur í gær og 90 mínútur plús í kvöld en hann er ungur og það er hungur og hann vildi þetta. Þetta var frábær niðurstaða."
Nánar er rætt við Ingvar í sjónvarpinu að ofan.
Athugasemdir
























