Forgangsatriði fyrir Man Utd að fá Gyökeres - Zirkzee til Aston Villa?
   mán 08. október 2012 14:20
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Íslenskir „fótboltasérfræðingar“
Jóhann Ingi Guðjónsson skrifar:
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Mynd: Getty Images
Ítalska landsliðið spilaði skemmtilegan bolta á EM.
Ítalska landsliðið spilaði skemmtilegan bolta á EM.
Mynd: Getty Images
Heimir Guðjónsson.
Heimir Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hrafnhildur Heiða Gunnlaugsdóttir
Það er algengur siður í íslenskum fótboltaspjallþáttum að hafa einn þáttarstjórnanda, sem umkringir sig svo með nokkrum fótboltasérfræðingum. Þessir sérfræðingar gefa álit sitt á komandi sem og liðna leiki og túlka þá svo líkt og sérfræðingum einum er lagið.

Það vill þó oftar en ekki til, að þegar umræðuefnið er komið út fyrir landsteina Íslands og Bretlands verða þessir sérfræðingar ekkert meira en besservisserar sem tala í eintómum klisjum. Við skulum líta á nokkur dæmi.

Í sumar átti sér stað eitt af stærstu fótboltamótum heims – EM. Einar Örn Jónsson sá um Betri Stofuna þar sem hann fékk til sín helstu sérfræðinga fótboltans. Eða það myndi maður halda. Því miður komu upp stundir þar sem maður átti erfitt með að horfa. Þau skipti sem að Arnar Gunnlaugsson talaði nógu hátt til að maður heyrði, var það oft vitleysa sem hann hefði betur mátt hvísla.

Hann rýndi í ítalska landsliðið fyrir opnunarleik þess við Evrópumeistara Spán. Þar var hann handviss um að liðið myndi liggja aftarlega á vellinum, spila upp á jafntefli og vonast til að fá skyndisóknir. Það kom honum því, sem og hinum ,,sérfræðingunum”, mikið á óvart þegar Ítalirnir spiluðu skemmtilegan fótbolta og reyndu að stjórna leiknum sjálfir. Þetta var þó nákvæmlega sami fótbolti og Ítalía hafði spilað alla undankeppnina og í algjöru samræmi við hugmyndir Cesare Prandelli um skemmtilegan, fljótandi sóknarbolta.

Einnig minntist Arnar á hversu erfitt það gæti reynst að brjóta niður vörn Ítalana. Það væri hægt að sanna það með varnarleik ítölsku liðanna á liðnu tímabili í Meistaradeildinni - þar sem hann sagði oft ómögulegt að skora gegn þeim. Ekki veit ég hvort Arnar hafi hreinlega verið á Austur öll þriðjudags- og miðvikudagskvöld síðastliðið vor, en varnir ítölsku liðanna voru hreinlega til skammar. Napoli tapaði 4-1 á Stamford Bridge. AC Milan tapaði 3-0 á Emirates og Nou Camp. Að meðaltali fengu ítölsku liðin 2,15 mörk á sig í leik í útsláttarkepninni.

Það átti sér einnig stað sú umræða í sumar, eftir leik Englendinga, að Joe Hart væri augljóslega besti markmaður í heimi og það væri hreinlega ekki hægt að deila um það. Joe Hart er vissulega flottur markmaður og réttlætanlegt að sumir telja hann þann besta. Það er hinsvegar fráleitt að telja hann svo góðan að það er ekki hægt að deila um það. En ,,sérfræðingarnir” hafa líklega enga reynslu af mönnum eins og Manuel Neuer, Gianluigi Buffon og Iker Casillas. Enda spila þeir ekki á Englandi.

Eftir flotta keppni Ítala á EM bjóst maður við því að sérfræðingarnir myndu átta sig á að klisjan um ítalska varnarsinna væri dauð. Það var þó eftir síðastliðinn þriðjudag sem mælir minn fylltist og mér fannst ég knúinn til þess að skrifa þessa grein. Eftir Meistaradeildina fór í gang umæðuþáttur á Stöð2Sport. Þar fór Heimir Guðjónsson ,,sérfræðingur” mikinn og lét þau orð falla, eftir leik Juventus og Shakhtar, að Juventus væri mjög varnarsinnað lið.

Heimir - í fyrra átti Juventus fleiri skot í leik en nokkurt annað lið í topp 5 deildum Evrópu, þeir spiluðu með þriggja manna varnarlínu og héldu boltanum 61%. Í ár hafa þeir skorað 15 mörk í 6 leikjum. Því máttu segja mér Heimir - hvað áttir þú við með að Juventus væru mjög varnarsinnaðir?

Þetta eru aðeins örfá dæmi um þá vitleysu sem maður þarf að hlusta á frá okkar svokölluðu ,,fótboltasérfræðingum” í hverri viku. Þar sem ég þekki best inn á ítalska boltann eru dæmin mín aðallega tengd honum. Ég efast þó ekki að hlustendur sérfræðinga okkar taki eftir fjöldann allan af annarri vitleysu sem frá þeim koma.

Ástæða mín fyrir þessari grein er tvíþætt. Í fyrsta lagi vonast ég til þess að sérfræðingar geri heimavinnu sína og rannsaki lið utan landsteina Bretlands þegar það kemur að alþjóðlegum keppnum. Í öðru lagi vonast ég til þess að sérfræðingar blaðri ekki í klisjum þegar þeir vita ekkert um viðkomandi umræðuefni. Fyrir þá sem þekkja inn á umræðuna líta þeir út eins og verstu trúðar.

Ef maður veit ekkert um hvað maður er að tala – er ekki betra að halda kjafti?

Jóhann Ingi Guðjónsson
@johannig
Athugasemdir
banner
banner