Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   fös 09. janúar 2015 15:30
Magnús Már Einarsson
Jóhann Alfreð spáir í leiki helgarinnar á Englandi
Valsararnir Jóhann Alfreð og Geir Ólafs á góðri stund.
Valsararnir Jóhann Alfreð og Geir Ólafs á góðri stund.
Mynd: Úr einkasafni
Redknapp mun veita bílrúðuviðtöl samkvæmt spánni.
Redknapp mun veita bílrúðuviðtöl samkvæmt spánni.
Mynd: Getty Images
Hazard fær nýjan fylgjanda á Instagram.
Hazard fær nýjan fylgjanda á Instagram.
Mynd: Getty Images
Hver er fituprósentan hjá Phil Dowd?
Hver er fituprósentan hjá Phil Dowd?
Mynd: Getty Images
Boltinn byrjar að rúlla á nýjan leik í ensku úrvalsdeildinni á morgun.

Jóhann Alfreð Kristinsson og félagar í uppistandshópnum Mið-Ísland eru að byrja með nýja sýningu í kvöld og Jóhann fær það verkefni að tippa á leiki helgarinnar í enska boltanum að þessu sinni.

,,Það er svolítil jafnteflislykt af mörgum leikjanna í þessari umferð," sagði Jóhann Alfreð en spá hans má sjá hér að neðan.


Sunderland 1 - 1 Liverpool (12:45 á morgun)
Sunderland er með langflestu jafnteflin í deildinni og bæta sínu tólfta við. Vonbrigði fyrir Liverpool sem komast yfir með marki Steven Gerrard sem mun að sjálfsögðu spila eins og þegar hann var upp á sitt besta það sem eftir lifir tímabilsins.

Burnley 1 - 1 QPR (15:00 á morgun)
Mikilvægt stig fer til stigahimna í grjóthörðum fallslag. Ings og Austin með mörkin í sýningarglugganum. Redknapp veitir þrjú viðtöl út um bílrúðu og segir Kolbein Sigþórsson vera góðan leikmann áður en hann skrúfar upp.

Chelsea 3 - 0 Newcastle (15:00 á morgun)
Heimastíll þar sem mulningsvélin nær sér á strik eftir tapið á nýársdag og mylur Newcastle. Mourinho setur nýtt persónulegt met með því að vera kominn í undirgöngin 3,8 sekúndum eftir að flautað verður til leiksloka. Haazard skorar tvö og bróðir Messi byrjar að elta hann á Instagram í kjölfarið sem gerir allt vitlaust.

Everton 1 - 3 Man City (15:00 á morgun)
Raunir Everton halda áfram og City vinnur sannfærandi með allavega einu marki frá knattspyrnumanni Afríku. Ross Barkley missir út sér eftir leikinn að í hnattrænu samhengi sé margt verra en að sitja á bekknum hjá City fyrir 130.000 pund á viku. Það verður lítið vinsælt.

Leicester 2 - 1 Aston Villa (15:00 á morgun)
Þetta dettur loksins fyrir Leicester sem vinna sanngjarnan sigur og setja meiri spennu í botnslaginn. Kramaric verður kátur með sódavatn í stúkunni.

Swansea 1 - 1 West Ham (15:00 á morgun)
Gylfi leggur upp á Routledge en Bony-lausum Swansea-mönnum gengur erfiðlega að nýta fleiri færi. Íslendingar biðja um Kolbein í framlínuna en Monkarinn verður ekki á sama máli.

WBA 2 - 2 Hull (15:00 á morgun)
Pulis mættur og nælir í eitt stig. Berahino setur eitt og bregst við eins og hann hafi misst ástvin. Síðasti leikur hans fyrir WBA.

Crystal Palace 1 - 2 Tottenham (17:30 á morgun)
Pardew kemst yfir í sínum fyrsta deildarleik en mínir menn jafna fyrir leikhlé. Allt stefnir í jafntefli þar til lausnarinn sjálfur Kane setur Bale-ískt sigurmark í blálokin. Lineker tekur mikinn sjáanda og tístar eftir leik að Kane muni spila landsleik fyrir England.

Arsenal 1 - 1 Stoke (13:30 á sunnudag)
Enn eitt jafnteflið er Stoke heldur áfram að stríða Arsenal. Sanchez kemur Arsenal yfir en Spursarinn Crouch jafnar . Gæti trúað að einn til tveir gúnerar tísti #WengerOut eftir leikinn.

Manchester United 2 - 2 Southampton (16:00 á sunnudag)
Sjöunda jafnteflið í geggjuðum leik United og Southampton sem mun innihalda allt. United fá rautt í stöðunni 2-1 og Pelle sigurvegari jafnar skömmu síðar. Southampton eiga að fá víti í uppbótartíma en það er ekki hefð fyrir því að menn fái víti i lok leikja á Trafford. Það þarf nánast að stía Van Gaal og Koeman í sundur eftir leikinn og Koeman biður í anda Guðjóns Þórðarsonar um þoltölurnar og fituprósentuna hjá Phil Dowd.

Fyrri spámenn:
Eiður Smári Guðjohnsen (8 réttir)
Gary Martin (8 réttir)
Jón Daði Böðvarsson (7 réttir)
Rúnar Már Sigurjónsson (7 réttir)
Viðar Örn Kjartansson (6 réttir)
Ari Freyr Skúlason (5 réttir)
Logi Bergmann Eiðsson (5 réttir)
Margrét Lára Viðarsdóttir (5 réttir)
Auðunn Blöndal (4 réttir)
Ólafur Karl Finsen (4 réttir)
Baldur Sigurðsson (4 réttir)
Björn Bragi Arnarsson (4 réttir)
Steindi Jr. (4 réttir)
Atli Fannar Bjarkason (3 réttir)
Doddi litli (3 réttir)
Egill Helgason (3 réttir)
Einar Örn Jónsson (3 réttir)
Hlynur Bæringsson (3 réttir)
Athugasemdir
banner
banner
banner