
,,Við eigum svolítið harma að hefna frá fyrri leiknum við þær," sagði Margrét Lára Viðarsdóttir framherji Íslands við Fótbolta.net í gær en Ísland tekur á móti Norður Írlandi á Laugardalsvelli á morgun. Ísland marði 1-0 sigur í fyrri leik liðanna.
,,Þær hefðu vel getað farið með þrjú stig þar en við vorum heppnar má segja, en við ætlum okkur að sýna betri leik á morgun."
,,Það sýnir sig að litlu liðin geta á góðum degi náð góðum úrslitum ef þau lið sem teljast betri fyrirfram eru ekki á tánum. En við ætlum að vera betri stemmdar á morgun og fara með þrjú stig sem við þurfum á að halda."
,,Þær eru með fínt lið, geta barist og skorað mörk og staðið sig vel. Við verðum bara að vera viðbúnar þeirri baráttu og taka þrjú stigin sem eru í boði á morgun."