Marco Silva, stjóri Fulham á Englandi, segist skilja viðbrögð kollega síns, Erik ten Hag, við myndbandi sem birti á TikTok-reikningi Fulham í vikunni.
Fulham sendi frá sér myndband á TikTok þar sem grín er gert að Bruno Fernandes, leikmanni Manchester United, og meintum leikaraskap hans í leik liðanna á dögunum.
Ten Hag fékk ábendingu frá fréttamönnum í gær um að Fulham hefði gefið út þetta myndband þar sem grín var gert að Fernandes og sagði hann þá pirraður: „Ég vissi ekki af þessu en mér finnst þetta ekki réttlátt. Mér finnst það ekki réttlætanlegt hjá félaginu að gefa út svona myndband. Þeir eiga að biðjast afsökunar á þessu."
Silva sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag þar sem hann var spurður út í pirring Ten Hag. „Ég hef ekki séð myndbandið sjálfur en ég veit af því. Ég er ekki aðdáandi samfélagsmiðla."
„Það er eðlilegt að stjóri verji leikmann sinn. Ég myndi verja mína leikmenn fram í rauðan dauðann. Ten Hag varði leikmann sinn og ég skil það mjög vel."
„Það er mikill hávaði í kringum þetta vegna þess að þetta er Manchester United. Spurningin er um TikTok en ég vil frekar tala um frammistöðuna hjá mínu liði."
Athugasemdir