„Þetta er svolítið óraunverulegt," sagði Sigurður Heiðar Höskuldsson, þjálfari Þórs, í viðtali við Fótbolta.net um heimkomu Arons Einars Gunnarssonar í Þór. „Það er búið að vera langur aðdragandi að þessu og mörg spurningamerki með þetta allt saman. Frábær dagur í dag."
„Þetta er leiðtogi íslenskrar fótboltasögu, fyrirliði íslenskrar knattspyrnu. Það er nákvæmlega það sem hann er að koma með inn í liðið. Það hefur svolítið öskrað á leiðtoga og karakter í Þórsliðinu upp á síðkastið og við höfum rætt það mikið innan leikmannahópsins og þá sækjum við þann stærsta," sagði Siggi.
Næsti leikur Þórs er heimaleikur gegn Njarðvík laugardaginn 10. ágúst.
„Við erum að horfa í það að hann taki einhvern þátt í leiknum. Hann er ekki tilbúinn að byrja en ég býst við því að hann taki einhvern þátt í þeim leik," sagði Siggi.
Það eru vangaveltur um hvar hann muni spila á vellinum en hann getur bæði spilað sem varnarsinnaður miðjumaður og miðvörður.
„Í sannleika sagt þá er það eitthvað sem við eigum eftir að skoða, ég og mitt teymi og hann. Hvar hann mun nýtast okkur best og hvar hann mun hafa áhrif á liðið," sagði Siggi.
Það er möguleiki á því að Aron fari á lán erlendis.
„Við erum að hjálpa honum, hann er að hjálpa okkur. Hann vill komast aftur í landsliðið, til þess að komast aftur í landsliðið þarf hann að fara út og til þess að komast út þarf hann að vera leikhæfur, með mínútur undir beltinu. Hann hlakkar til að stíga út á Þórsvöllinn og okkur hlakkar til að sjá hann."