
„Við erum mjög svekkt, þetta var vont tap á móti liði sem kom upp með okkur í fyrra“ sagði Óskar Smári, þjálfari Fram, eftir 1-6 tap gegn Gróttu í Úlfarsárdalnum í kvöld.
Lestu um leikinn: Fram 1 - 6 Grótta
„Grótta er frábært lið, ég ætla ekki að tala þær niður en okkar frammistaða var bara vond.“
Þrátt fyrir að bæði lið séu nýliðar hafa þau byrjað deildina á mjög ólíkan hátt. Fram eru í 9. sæti með 1 stig eftir fimm leiki á meðan Grótta eru með 12 stig og á toppnum eins og staðan er í augnablikinu.
"Við vorum einstaklingar en þær voru lið og það fór margt úrskeiðis í dag hjá okkur.“
Það voru ekki liðnar nema 20 sekúndur þegar Grótta setti fyrsta markið og eftir það gengu þær á lagið og gáfu í. Eins og áður segir hefur tímabilið byrjað erfiðlega hjá Fram og aðspurður hvort að það sé að hafa áhrif á leikmenn segir hann:
„Já ég held það. Miðað við hvernig leikurinn spilaðist í dag þá já. Við þurfum að fara að rífa okkur í gang. Við þurfum að fara að gera hlutina miklu betur. Við þurfum að axla ábyrgð, við þurfum að taka af skarið, við þurfum að vera leiðtogar, við þurfum að vera karakterar. Við erum litlar, við erum hræddar, við erum smeykar, við erum hræddar við að tapa og það er vont.“
Viðtalið má sjá í heild sinni í spilararnum hér að ofan.