
„Þetta er frábær tilfinning, við byrjuðum tímabilið hægt en eftir nokkrar breytingar á skipulagi og öðru ásamt því sem kallað er 'Jordan effect' þá erum við komnir á betra ról," sagði Louis Aaron Wardle, leikmaður Magna og maður leiksins á Grenivík, eftir sigur gegn Aftureldingu í kvöld.
Lestu um leikinn: Magni 3 - 2 Afturelding
Hvað er þetta 'Jordan effect' sem Louis og Svenni þjálfari tala um?
„Þetta tengist körfuboltamanninum Michael Jordan. Svenni byrjaði að sýna okkur myndbönd um það hvernig sé að spila í hæsta gæðaflokki, þó það sé í annarri íþrótt, og það virkaði vel á hópinn. Það er eitthvað annað í gangi hjá okkur núna. Ég finn mikinn mun. Sumir hlutir sem eru sagðir í þessum myndböndum fá þig til að hugsa og þú tekur með þér í leikinn þinn, þetta hefur áhrif innan og utan vallar."
Að leiknum í kvöld: Er Louis sáttur með eigin frammistöðu?
„Ég skoraði og lagði upp svo ég er sáttur en mikilvægast er að við náðum í þrjú stig. Ég er búinn að glíma við smá meiðsli en gat spilað. Ég þurfti þó að fara af velli vegna meiðslanna, strákarnir gerðu vel það sem eftir lifði leiks."
Louis kom til Grenivíkur um mitt mótið í fyrra. Hvernig er að vera hjá Magna?
„Þetta hefur verið góður tími. Ég var spurður hvort ég vildi koma aftur og ég var meira en til í að aðstoða liðið við að ná sínum markmiðum."
Var ákvörðunin auðveld að koma aftur?
„Já ég sagði bara við þá að segja mér hvenær flugið væri."
Tveir sigrar í röð hjá Magna. Louis var að lokum spurður hvort andrúmsloftið væri ekki léttara í klefanum núna.
„Jú, eftir leikinn þá fögnuðu menn innilega. Allir vissu að ef við myndum leggja okkur fram, myndum ekki gefast upp og héldum áfram að berjast þá myndu þessar gleðistundir koma."
Nánar er rætt við Louis í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir