'En fólkið í kringum klúbbinn neitaði að gefast upp og það hélt okkur gangandi og þau eiga miklar þakkir skilið'
Einar Karl Ingvarsson var fyrirliði Grindavíkur á nýliðnu tímabili. Tímabilið var afskaplega sérstakt hjá Grindavík vegna eldgossins og voru heimaleikir liðsins spilaðir í Safamýrinni. Þetta var annað tímabil Einars með Grindavík.
Fótbolti.net ræddi við Einar og var hann fyrst spurður út í framhaldið.
Fótbolti.net ræddi við Einar og var hann fyrst spurður út í framhaldið.
„Staðan í dag er sú að það er frí frá æfingum og ég er lítið að stressa mig á þessum tímapunkti. Maður er bara að taka því rólega og njóta frítímans með fjölskyldunni. Samningurinn minn rennur út 1. des og ég hef ekkert heyrt frá Grindavík," segir Einar Karl.
„Ég er ekki búinn að taka neina ákvörðun um framhaldið og mun klárlega skoða alla þá möguleika sem standa mér til boða."
„Þau eiga miklar þakkir skilið"
Einar gerði svo upp tímabilið í grófum dráttum.
„Þetta var mjög sérstakt tímabil á marga vegu og sérstaklega á undirbúningstímabilinu þegar eldgosið byrjaði í Grindavík. Því fylgdi mikil óvissa sem er auðvitað mjög eðlilegt og eiginlega ótrúlegt að fótboltinn í Grindavík hafi náð að halda áfram. En fólkið í kringum klúbbinn neitaði að gefast upp og það hélt okkur gangandi og þau eiga miklar þakkir skilið."
Vantaði allan stöðugleika
Grindavík endaði í 9. sæti Lengjudeildarinnar, þremur sætum neðar en í fyrra.
„Tímabilið í heild sinni var ekki nógu gott og það vantaði allan stöðugleika. Við vorum með gott lið og gátum unnið hvaða lið sem er á góðum degi en svo komu dagar þar sem við gátum tapað fyrir hverjum sem er."
Geta gert góða hluti með liðið
Snemma tímabils var tekin ákvörðun um að láta Brynjar Björn Gunnarsson fara sem þjálfara liðsins og í hans stað var Haraldur Árni Hróðmars ráðinn.
„Þjálfarabreytingin kom öllum á óvart en Halli kom mjög sterkur inn og ég var mjög ánægður með hann og Marko (Valdimar Stefánsson). Ég er viss um að þeir geti gert góða hluti með liðið."
Fyrirliði í fyrsta sinn
Einar tók við fyrirliðabandinu í vetur og segir það hafa verið mikinn heiður.
„Það var mikill heiður fyrir mig að vera fyrirliði Grindavíkur og vil ég þakka Brynjari fyrir traustið sem hann gaf mér. Þetta er í fyrsta skipti sem ég er fyrirliði liðs í meistaraflokki og það gekk á ýmsu, bæði innan vallar og utan. Maður lærði mjög mikið af því og gengur frá þessu tímabili reynslunni ríkari."
Var í frábæru formi og naut þess að spila
Hvernig metur þú þitt tímabil, varstu sáttur með þína frammistöðu?
„Auðvitað hefði ég viljað að liðinu hefði gengið betur en mér fannst ég spila mjög vel heilt yfir á tímabilinu. Ég var í frábæru formi í sumar, skoraði þrjú mörk og lagði upp fimm og naut þess að spila fótbolta. Það er alltaf gott að fá smá frí eftir tímabil, en ég er spenntur að sjá hvaða möguleikar verða í stöðunni fyrir næsta tímabil," segir Einar Karl.
Hann er miðjumaður, verður 31 árs í næsta mánuði og hefur spilað með FH, Fjölni, Val, Stjörnunni og Grindavík á sínum ferli.
Athugasemdir