Gomes, Lookman og Kolo Muani orðaðir við Man Utd - Trossard fær launahækkun - Brownhill í ítalska boltann?
banner
   lau 02. nóvember 2024 14:55
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Myndband: Hlín með gjörsamlega frábært mark
Ari og félagar á mjög góðu skriði
Hlín skoraði geggjað mark í dag.
Hlín skoraði geggjað mark í dag.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Gengur vel hjá Ara og liðsfélögum hans þessa dagana.
Gengur vel hjá Ara og liðsfélögum hans þessa dagana.
Mynd: Kolding
Sædís varð meistari í síðasta mánuði.
Sædís varð meistari í síðasta mánuði.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Þær Hlín Eiríksdóttir, Guðný Árnadóttir og Katla Tryggvadóttir voru allar á sínum stað í byrjunarliði Kristianstad sem tók á móti Djurgården í næstsíðustu umferð sænsku deildarinnar í dag.

Kristianstad vann leikinn, 3-1, og komu öll mörkin í seinni hálfleik. Hlín skoraði fyrsta mark leiksins á 53. mínútu eftir magnaðan einnleik. Hún fékk boltann úti vinstra megin við teiginn, fór illa með varnarmann Djurgården í tvígang, tók gabbhreyfingu á næsta varnarmann og smellti svo boltanum í netið með skoti utarlega úr teignum. Markið má sjá hér neðst.

Djurgården jafnaði metin á 64. mínútu en Kristianstad komst aftur yfir á 80. mínútu. Eftir gott samspil á hægri vængnum átti Guðný flotta fyrirgjöf út í vítateiginn hjá Djurgården og þar var Tilda Persson sem skoraði með góðu skoti.

Í uppbótartíma var svo brotið á Hlín inn á vítateig Djurgården og Mathilde Janzen innsiglaði sigurinn með marki úr vítaspyrnunni.

Hlín hefur verið funheit að undanförnu og var þetta hennar sjötta mark í sjö síðustu leikjum með Kristianstad. Liðið endar í 4. sæti í deildinni, nokkuð frá því að ná í Evrópusæti og vel fyrir ofan 5. sætið.

Í Danmörku var miðvörðurinn Ari Leifsson á sínum stað í byrjunarliði Kolding sem vann 0-1 útisigur á Roskilde í B-deildinni. Þetta var þriðji leikurinn í röð sem Kolding heldur hreinu og fimmti sigurinn í sex leikjum í deild og bikar.

Kolding er í 4. sæti deildarinnar þegar sjö umferðir eru í tvískiptingu.

Loks var Sædís Rún Heiðarsdóttir á sínum stað í byrjunarliði Vålerenga sem vann 1-2 útisigur á Brann í norsku úrvalsdeildinni. Um næstsíðustu umferð deildarinnar er að ræða og eru Brann og Vålerenga í toppsætunum. Vålerenga er með fjórtán stiga forskot eftir leik dagsins og var það orðið ljóst í síðasta mánuði að Vålerenga yrði meistari.

Vinstri bakvörðurinn Sædís hefur verið í stóru hlutverki á sínu fyrsta tímabili í atvinnumennsku.



Athugasemdir