fim 03. apríl 2025 15:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Með áhyggjur af Glódísi - „Vonandi klárar Bayern þessa helvítis deild sem fyrst"
Icelandair
Glódís er gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir landsliðið.
Glódís er gríðarlega mikilvægur leikmaður fyrir landsliðið.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís er einnig fyrirliði Bayern.
Glódís er einnig fyrirliði Bayern.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Glódís Perla Viggósdóttir, landsliðsfyrirliði, missir ekki oft af landsliðsverkefni en það gerist núna. Hún er með stórt beinmar á hnénu en þetta er í fyrsta sinn á ferlinum þar sem hún glímir við flókin meiðsli.

Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari Íslands, var á fréttamannafundi í dag, spurður út í samskiptin við Bayern München, félagslið Glódísar.

„Sko, ég er búinn að vera í ágætis samskiptum við Bayern, Glódísi líka. Í sjálfu sér er ég búinn að vita það lengi hvað væri rétt að gera. Ég ætla ekkert að fara djúpt í þessa hluti en ég er búinn að vita það lengi að það væri eina vitið fyrir okkur að hún spilaði ekki í þessu verkefni," sagði Þorsteinn en hann er ekki sammála öllu því sem Bayern hefur gert í meiðslum Glódísar. Hún er fyrirliði Bayern og afar mikilvægur leikmaður fyrir þýska stórveldið, og hefur verið að spila í gegnum meiðslin.

„Svo er annað mál hvað þeir gera. Það er einhver ákvörðun sem þeir taka og ég er búinn að vera í samskiptum við þá og þó ég hafi ekki verið sammála því sem þeir eru að gera, þá eiga þeir rétt á því og þeir ráða þessum tíma - eins og við ráðum hvað við gerum í þessum glugga. Við hefðum alveg getað kallað hana inn og sagt við hana að hún væri að fara að spila með okkur og reynt að láta hana spila eins mikið og hægt er. En ég taldi það bara rétt, til lengri tíma litið, að spila henni ekki."

„Það er hennar hagur að hún spili ekki í þessu verkefni að hún spili ekki í þessu verkefni. Hennar hagsmunir eru okkar hagsmunir líka. Við erum líka að horfa á EM. Ég er búinn að vita það í fjórar vikur að hún væri ekki að fara að spila í þessu verkefni."

Hefur áhyggjur fyrir EM
Þorsteinn viðurkenndi á fundinum að hann hefði áhyggjur af meiðslunum þegar horft er til EM í sumar. Glódís er auðvitað okkar mikilvægasti leikmaður.

„Já, ég hef það," sagði Þorsteinn.

„Ég er heiðarlegur og hreinskilinn með það að ég hef áhyggjur. Deildin er búin 12. maí í Þýskalandi og ég hef alveg áhyggjur af því að hún sé að fara að spila þangað til. Það fer eftir því hvort þau séu búin að klára deildina eða ekki. Ég hef áhyggjur af þessu. Raunsætt getur það komið til að hún spili ekki á EM, en við þurfum að vona það besta. Vonandi klárar Bayern þessa helvítis deild sem fyrst," sagði landsliðsþjálfarinn.

Ísland er að fara að spila við Noreg og Sviss í Þjóðadeildinni á næstu dögum. Bæði Þorsteinn og Ingibjörg Sigurðardóttir, leikmaður liðsins, töluðu um það á fundinum að aðrir leikmenn þyrftu að stíga upp í fjarveru Glódísar.

Leikur Íslands og Noregs er á morgun klukkan 16:45.
Athugasemdir
banner
banner
banner