
„Leikurinn á föstudaginn leggst mjög vel í mig, við erum mjög spenntar," segir Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir í viðtali við Fótoblta.net.
Ísland tekur á móti Noregi á Þróttarvelli klukkan 16:45 á morgun. Leikurinn er liður í 3. umferð riðlakeppninnar í Þjóðadeildinni.
Ísland tekur á móti Noregi á Þróttarvelli klukkan 16:45 á morgun. Leikurinn er liður í 3. umferð riðlakeppninnar í Þjóðadeildinni.
„Við vitum að við getum pressað og sótt hátt. Það verður gaman að sjá á föstudaginn, þið verðið öll að mæta á leikinn til að sjá! Þær eru með brjálaða pressu og mikil læti, en það skemmtilega við það er að við trompum það. Það er að sjálfsögðu mikilvægt að það verði góð stemning, við Íslendingar sköpum hana sjálf, ég held það verði mjög góð mæting og brjáluð stemning."
Glódís Perla Viggósdóttir, fyrirliði liðsins, verður ekki með í leikjunum tveimur sem spilaðir eru í þessum landsleikjaglugga en hún glímir við meiðsli á hné.
„Að sjálfsögðu er mikill missir að vera ekki með Glódísi, en samt sem áður kemur bara maður í manns stað. Við ætlum bara að spila fyrir Glódísi og gera hana stolta."
Andrea Rán sneri aftur í landsliðshópinn í febrúar eftir að hafa ekki verið valin síðan haustið 2021.
„Það er mjög gaman að vera komin aftur og ég er mjög stolt að vera hérna. Það kom á óvart og kom ekki á óvart. Ég held ég hafi verið komin með það hugarfar að það sem gerist gerist og ég mun alltaf halda því áfram sem ég er að gera. Ef maður heldur áfram, þá kemur eitthvað gott úr því."
Hefur það alltaf verið á bakvið eyrað á þér að landsliðskallið gæti komið?
„Já, en aftur á móti er maður aldrei að búast við því. Samt sem áður spilar maður þannig að kallið gæti komið, þannig að mótlætið styrkir mann," sagði Andrea Rán. Hún er 29 ára miðjumaður og ef hún kemur við sögu á morgun verður það hennar 15. landsleikur.
Viðtalið í heild sinni má sjá í spilaranum efst.
Athugasemdir