PSG leiðir kapphlaupið um Salah - Tuchel á blaði Man Utd - Newcastle líklegt til að reyna aftur við Guehi
banner
   fim 03. október 2024 09:26
Elvar Geir Magnússon
BBC fjallar um endurkomu Guðjohnsen á Brúna
Með greininni er mynd af Andra Lucasi fjögurra ára gömlum í faðmi föður síns að fagna Englandsmeistaratitli Chelsea 2005.
Með greininni er mynd af Andra Lucasi fjögurra ára gömlum í faðmi föður síns að fagna Englandsmeistaratitli Chelsea 2005.
Mynd: BBC
Andri Lucas hitar upp fyrir landsleik.
Andri Lucas hitar upp fyrir landsleik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er áhugaverður slagur á Stamford Bridge er Chelsea tekur á móti Gent í Sambandsdeildinni í dag.

Íslenski landsliðsmaðurinn Andri Lucas Guðjohnsen er í liði Gent en hann er að snúa aftur á heimaslóðir. Hann fæddist í Lundúnum þegar faðir hans, Eiður Smári, spilaði fyrir Chelsea.

„Gudjohnsens back at Stamford Bridge and ready to beat Chelsea“ er fyrirsögn á grein sem birt er á BBC þar sem fjallað er um komu Andra á völlinn þar sem pabbi hans hjálpaði Chelsea að tryggja sér sinn fyrsta Englandsmeistaratitil í 50 ár.

Með greininni er mynd af Andra Lucasi fjögurra ára gömlum í faðmi föður síns að fagna Englandsmeistaratitli Chelsea 2005.

Andri sagði í viðtali við Fótbolta.net í síðasta mánuði að það væri svo sannarlega sérstök tilfinning að vera að fara að spila gegn Chelsea á Stamford Bridge.

„Það er pínu öðruvísi. Pabbi spilaði í mörg ár með Chelsea og er mjög stór þar, ég fæddist líka þar þegar hann var að spila þar. Þetta er sérstakt. Eins og ég segi þá getur fótboltinn verið geggjaður og þetta er dæmi um það. Þetta er leikur sem maður vill spila, ég er viss um að þetta verði frábær upplifun," sagði Andri Lucas.

Í grein BBC er að sjálfsögðu einnig fjallað um bræður Andra og afa hans, Arnór Guðjohnsen, sem er goðsögn hjá Anderlecht.
Athugasemdir
banner
banner
banner