Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 04. ágúst 2022 14:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Spáin fyrir enska - 4. sæti - „Hef trú á að hann geti spilað Ten Hag boltann"
Manchester United
Man Utd er spáð fjórða sæti.
Man Utd er spáð fjórða sæti.
Mynd: Getty Images
Erik ten Hag tók við stjórn Man Utd.
Erik ten Hag tók við stjórn Man Utd.
Mynd: Getty Images
Fyrirliðinn Harry Maguire er umdeildur.
Fyrirliðinn Harry Maguire er umdeildur.
Mynd: Getty Images
Sancho er á leið inn í sitt annað tímabil með Man Utd.
Sancho er á leið inn í sitt annað tímabil með Man Utd.
Mynd: EPA
Halldór með treyju afa síns.
Halldór með treyju afa síns.
Mynd: Úr einkasafni
Rashford var týndur á síðasta tímabili. Hvað gerir hann núna?
Rashford var týndur á síðasta tímabili. Hvað gerir hann núna?
Mynd: Getty Images
Ronaldo er sagður vilja komast burt til þess að spila í Meistaradeildinni. En hann er enn hjá félaginu sem stendur.
Ronaldo er sagður vilja komast burt til þess að spila í Meistaradeildinni. En hann er enn hjá félaginu sem stendur.
Mynd: Getty Images
Christian Eriksen er einn af þremur leikmönnum sem Man Utd hefur fengið til sín í sumar.
Christian Eriksen er einn af þremur leikmönnum sem Man Utd hefur fengið til sín í sumar.
Mynd: Man Utd
Hvar endar United á komandi keppnistímabili?
Hvar endar United á komandi keppnistímabili?
Mynd: Getty Images
Enska úrvalsdeildin, sem er í miklu uppáhaldi hjá flestum fótboltaunnendum á Íslandi, hefst um næstu helgi. Fyrsti leikur er á föstudaginn.

Líkt og síðustu ár, þá munum við kynna liðin í deildinni eftir því hvar þau enda í sérstakri spá fréttamanna Fótbolta.net. Við heyrum líka í stuðningsfólki hvers lið og tökum púlsinn fyrir tímabilið sem er framundan.

Í fjórða sæti í þessari spá er Manchester United.

Um Man Utd: Síðasta tímabil var vægast sagt skelfilegt hjá United. Það fór allt í skrúfuna undir stjórn Ole Gunnar Solskjær og ekki batnaði ástandið undir stjórn Þjóðverjans Ralf Rangnick. Það átti að ráðast í allsherjar breytingar í sumar. Rangnick talaði um að það þyrfti tíu nýja leikmenn en hingað til hafa bara þrír nýir menn komið inn.

Það má segja að stærstu kaup sumarsins hafa verið gerð þegar Hollendingurinn Erik ten Hag var ráðinn til starfa sem nýr stjóri liðsins. Það verður athyglisvert að sjá hvort hann nái að koma liðinu aftur á toppinn.

Komnir:
Lisandro Martínez frá Ajax - 48,3 milljónir punda
Tyrell Malacia frá Feyenoord - 12,9 milljónir punda
Christian Eriksen frá Brentford - fríttt
Anthony Martial frá Sevilla - var á láni

Farnir:
Andreas Pereira til Fulham - 10 milljónir punda
Dylan Levitt til Dundee United - 300 þúsund pund
Álvaro Fernández til Preston - á láni
Jesse Lingard til Nottingham Forest - frítt
Paul Pogba til Juventus - frítt
Martin Svidersky til Almeria - frítt
Dean Henderson til Nottingham Forest - á láni
Nemanja Matic til Roma - frítt
Juan Mata fékk ekki nýjan samning
Edinson Cavani fékk ekki nýjan samning
Lee Grant lagði hanskana á hilluna

Lykilmenn: Raphael Varane, Bruno Fernandes og Jadon Sancho verða að eiga gott tímabil, allavega betra tímabil en þeir áttu í fyrra. Þeir eru allir frábærir fótboltamenn með mikil gæði. Verði þeir upp á sitt besta, þá getur United barist um Meistaradeildarsæti. Cristiano Ronaldo er einn besti fótboltamaður allra tíma og hann mun líklega skora þónokkur mörk ef hann spilar, en er hann heilt yfir að fara að hjálpa liðinu með sinni spilamennsku og vinnuframlagi? Það er klárlega hægt að deila um það.




Helgistund á hans heimili þegar United spilaði
Halldór Marteinsson hefur verið stuðningsmaður Man Utd í langan tíma. Hann svaraði nokkrum spurningum um liðið og tímabilið sem er framundan.

Ég byrjaði að halda með Man Utd af því að... Gústi afi minn á Ólafsfirði var mikill fótboltaáhugamaður og það var alltaf helgistund á hans heimili þegar United spilaði. Þá klæddi hann sig upp í viðeigandi treyju eftir því hvort United átti leik á heima- eða útivelli og lifði sig af ástríðu inn í leikinn. Þetta hafði mikil áhrif á mig en svo komu leikmenn eins og Peter Schmeichel og Eric Cantona sem gulltryggðu þetta, auk þess sem áran yfir Alex Ferguson hafði alltaf sitt aðdráttarafl líka. Ég á eina af treyjunum frá afa, það er uppáhalds treyjan í mínu treyjusafni.

Hvernig fannst þér síðasta tímabil og hvernig líst þér á tímabilið sem framundan er? Síðasta tímabil var alls ekki gott, það þarf engan sérstakan fótboltasnilling til að greina það. Leikur liðsins og andinn í hópnum gjörsamlega hrundu og ekkert sem var reynt virkaði, ekki einu sinni að reka Solskjær og fá inn nýjan stjóra.

Það býr alveg meira í flestum þessum leikmönnum en þeir sýndu og mér líst alveg vel á tímabilið framundan undir þeim formerkjum að verið sé að byggja upp nýtt lið og innleiða nýja heimspeki í leik liðsins. Margt sem lofar góðu nú þegar og vonandi hægt að byggja ofan á það næstu mánuðina.

Hefur þú farið út til Englands að sjá þitt lið spila? Ef svo er, hvernig var það? Því miður á ég það eftir. En það stendur til bóta, ég á inni ferð núna í vetur. Mig langar að finna helgi þar sem bæði karla- og kvennalið Manchester United eiga spennandi heimaleiki. Bæði liðin verða vonandi í baráttu um Meistaradeildarsæti, í það minnsta, og það væri gaman að blanda þessu saman í einni góðri ferð.

Uppáhalds leikmaðurinn í liðinu í dag? Jadon Sancho er leikmaður sem mig langaði mjög mikið að fá til United. Mjög skemmtilegur leikmaður sem ég hef mikla trú á að muni henta Ten Hag vel með sínum leikstíl.

Ég hef haldið upp á Harry Maguire frá því ég byrjaði að fylgjast með honum hjá Hull 2017. Á mikið inni en fer vonandi að sýna aftur hvað hann getur hjá United og ég hef alveg trú á að hann geti spilað Ten Hag boltann. Það er leiðinlegt hversu toxic stemning hefur verið gagnvart honum, hann á það ekki skilið að mínu mati. Auðvitað er ekkert að því að gagnrýna spilamennsku leikmanna en þetta hefur oft verið eitthvað annað og verra.

Svo held ég að Lisandro Martínez sé bæði leikmaður og karakter sem verður fljótur að vinna stuðningsfólk á sitt band.

Leikmaður sem þú myndir vilja losna við? Það væri fínt að losna við nokkra varnarmenn, aðallega til að geta þá bætt við sprækum hægri bakverði sem getur spilað eftir uppskriftinni frá Ten Hag. Jones, Bailly, Telles og Wan-Bissaka koma þar helst til greina.

Leikmaður í liðinu sem fólk á að fylgjast sérstaklega með í vetur? Ég veit ekki alveg hversu margar mínútur Alejandro Garnacho mun fá í vetur en þar er sannarlega nafn sem fólk ætti að leggja á minnið, svakalega mikið efni og skemmtilegur leikmaður. En af þeim sem munu spila reglulega þá ætla ég að segja að Jadon Sancho verði öflugur lykilmaður í sóknarleik Manchester United í vetur og muni færa sinn leik upp á nýjar hæðir.

Ef ég mætti velja einn leikmann úr öðru liði í ensku úrvalsdeildinni myndi ég velja... Erling Braut Haaland. Mig hefur langað að fá hann til United lengi. Leiðinlegt en skiljanlegt að hann valdi City, því miður.

Ertu ánægður með knattspyrnustjórann? Já, mjög ánægður. Ekki síst eftir að hafa fylgst með honum og liðinu á undirbúningstímabilinu. Hann veit hvað hann vill og hvernig hann ætlar að koma liðinu þangað. Það á eftir að taka einhvern tíma að móta þetta en ég hef trú á verkefninu og stjóranum.

Hvernig finnst þér leikmannaglugginn hafa verið? Það sem hefur gerst hefur verið fínt. Leikmennirnir sem komu inn eru mjög flottir og þeir sem hafa farið þurftu að fara. Það mætti bara meira hafa gerst, fleiri komið inn og fleiri farið út.

Frenkie de Jong sagan hefur verið langdregin en ég skil vel að United vilji halda þessu til streitu. Við höfum alveg séð á síðustu árum hvað það getur skipt miklu máli að fá rétta leikmanninn inn. Ef Frenkie væri í alvöru harður á því að hann væri alls ekki til í að koma til Manchester þá myndi félagið vita af því núna. En Barcelona er vægast sagt ekki skemmtilegasta félagið að díla við þessa dagana, ekki einu sinni fyrir þeirra eigin leikmenn. Sjáum hvað gerist en ég krossa putta og vona að hann mæti til United á endanum.

Í hvaða sæti mun Man Utd enda á tímabilinu? Fjórða sætið. Það verður ekki auðvelt verkefni miðað við hin liðin sem berjast um sæti 3 og 4. Í það minnsta vona ég að Ten Hag nái að stimpla sinn karakter vel á liðið og leikstílinn. Ég vil líka sjá liðið gera vel í Evrópudeildinni og helst vinna þá keppni.




Hér fyrir neðan má svo sjá hvernig spá fréttafólks Fótbolta.net lítur út.

Þau sem spáðu: Alexandra Bía Sumarliðadóttir, Aksentije Milisic, Arnar Laufdal Arnarsson, Brynjar Ingi Erluson, Elvar Geir Magnússon, Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson, Jóhann Þór Hólmgrímsson, Ívan Guðjón Baldursson, Sverrir Örn Einarsson, Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke.

Liðin fengu eitt stig og upp í 20 eftir það hvar hver og einn spáði þeim. Liðið í síðasta sæti fékk eitt stig, liðið í 19. sæti tvö stig og koll af kolli. Stigin í spánni tengjast á engan hátt stigafjölda liðanna í deildinni.
.

Spáin:
1.
2.
3.
4. Manchester United, 164 stig
5. Arsenal, 163 stig
6. Chelsea, 160 stig
7. West Ham, 133 stig
8. Leicester, 123 stig
9. Newcastle, 115 stig
10. Aston Villa, 99 stig
11. Wolves, 96 stig
12. Brighton, 94 stig
13. Crystal Palace, 90 stig
14. Everton, 61 stig
15. Southampton, 55 stig
16. Leeds, 53 stig
17. Fulham, 43 stig
18. Brentford, 42 stig
19. Nottingham Forest, 35 stig
20. Bournemouth, 11 stig
Enski boltinn - Bergmann bræður rýna í Man Utd
Athugasemdir
banner
banner
banner