Glugginn í Sádi-Arabíu er enn opinn - Onana, Sterling, Disasi, Santos og Silva orðaðir við félög þaðan
   fim 04. september 2025 17:45
Kári Snorrason
Líklegt byrjunarlið Íslands gegn Aserbaídsjan: Markvarðarskipti og flæðandi sóknarleikur
Icelandair
Íslenska landsliðið á æfingu á Laugardalsvelli í gær.
Íslenska landsliðið á æfingu á Laugardalsvelli í gær.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Elías Rafn og Hákon Rafn keppast um markvarðarstöðuna.
Elías Rafn og Hákon Rafn keppast um markvarðarstöðuna.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frammistöður Jóns Dags með landsliðinu halda honum inni í líklegu byrjunarliði.
Frammistöður Jóns Dags með landsliðinu halda honum inni í líklegu byrjunarliði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Lucas skrifaði undir hjá Blackburn á dögunum.
Andri Lucas skrifaði undir hjá Blackburn á dögunum.
Mynd: Blackburn Rovers
Íslenska landsliðið hef­ur leik í undankeppni HM annað kvöld þegar liðið mætir Aserbaídsjan á Laugardalsvelli. Ísland er í 74. sæti á styrkleikalista FIFA á meðan Aserbaídsjan er í 122. sæti.

Lestu um leikinn: Ísland 0 -  0 Aserbaídsjan

Í tilefni leiksins hefur Fótbolti.net sett saman líklegt byrjunarlið Íslands.

Á milli stanganna leggjum við traust okkar á Elías Rafn Ólafsson. Arnar sagði á blaðamannafundi fyrir leikinn að hann horfi til leikforms og síðustu frammistaðna með landsliðinu. Elías stóð sig vel í markinu í 3-1 sigri Íslands á Skotlandi í júní og er búinn að slá út Jonas Lössl í marki Midtjylland. Hákon Rafn Valdimarsson hefur spilað einn leik í deildarbikarnum með Brentford á tímabilinu.

Í hjarta varnarinnar verða þeir Daníel Leó Grétarsson og Sverrir Ingi Ingason. Daníel var í liði umferðarinnar í dönsku úrvalsdeildinni í síðustu umferð, en Sverrir hefur lítið spilað með Panathinaikos í Grikklandi en er einn mikilvægasti varnarmaður íslenska liðsins og nánast útilokað að hann missi sætið sitt.

Bakverðirnir tveir eru þeir Logi Tómasson, vinstra megin og Guðlaugur Victor Pálsson, hægra megin. Logi hefur farið vel af stað með Samsunspor í Tyrklandi og staðið sig vel með landsliðinu undanfarið. Það er frekari spurning með hægri bakvarðarstöðuna, en við leggjum traust okkar á Guðlaug, sem rifti nýverið samningi sínum við Plymouth og gekk til liðs við Horsens í dönsku B-deildinni.

Ísland mun eflaust halda meira í boltann og því teflum við fram sóknarsinnaðri miðju. Willum Þór Willumsson og Ísak Bergmann Jóhannesson verða þar dýpri og fyrir framan í frjálsri rullu verður Albert Guðmundsson. Mikael Neville Anderson og Stefán Teitur Þórðarsson voru nálægt því að koma inn í liðið, en við veðjum á að Arnar Gunnlaugsson horfi til þess að Ísland heldur meira í boltann og velji sóknarsinnaðri leikmenn.

Á köntunum tveimur verða þeir Jón Dagur Þorsteinsson og fyrirliðinn sjálfur Hákon Arnar Haraldsson í ólíkum hlutverkum. Hákon Arnar væri í flæðandi hlutverki á meðan Jón Dagur heldur sig meira út í víddinni. Mikael Egill Ellertsson hefur byrjað tímabilið vel í liði Genoa á Ítalíu og gerir sterkt tilkall til að koma inn í liðið. Frammistöður Jóns Dags með landsliðinu halda honum þó í líklegu byrjunarliði.

Fremsti maður verður Andri Lucas Guðjohnsen í fjarveru fyrirliðans Orra Steins Óskarssonar. Andri skrifaði nýverið undir samning við Blackburn í ensku Championship deildinni og hefur staðið sig vel með landsliðinu undanfarið. Brynjólfur Willumsson hefur byrjað tímabilið í Hollandi frábærlega, en hann var ekki í upprunalegum landsliðshóp og því tippum við á að hann byrji á bekknum.


Athugasemdir