„Mér líður vel og við erum með sjálfstraust. Við ætlum að halda því áfram sem við höfum verið að gera í síðustu sex, sjö leikjum í deildinni," sagði Nik Chamberlain, þjálfari Breiðabliks, í samtali við Fótbolta.net.
Á morgun fer fram stærsti leikur síðari ára í kvennaboltanum á Íslandi þegar Valur og Breiðablik mætast í hreinum úrslitaleik um sigur í Bestu deild kvenna. Breiðablik hefur verið að spila stórkostlega síðustu vikur og er með einu stigi meira en Valur fyrir leikinn.
Á morgun fer fram stærsti leikur síðari ára í kvennaboltanum á Íslandi þegar Valur og Breiðablik mætast í hreinum úrslitaleik um sigur í Bestu deild kvenna. Breiðablik hefur verið að spila stórkostlega síðustu vikur og er með einu stigi meira en Valur fyrir leikinn.
„Þegar við töpuðum Val hérna fyrir nokkrum vikum þá vissum við að við þyrftum að vinna næstu níu leiki. Við höfum unnið átta og á laugardaginn er sá níundi. Við vissum að við gætum ekki misstigið okkur," sagði Nik.
„Þegar við sáum þennan leik í uppsiglingu, þá held ég að allir hafi viljað hann. Það hefði verið synd ef Valur hefði tapað stigum og það hefði ekkert orðið úr þessum leik. Þetta er það sem allir vildu."
Breiðablik og Valur eru tveir risar í kvennaboltanum en þessi tvö lið hafa ýtt hvort öðru áfram í sumar.
„Við og Valur höfum tekið gæðastigið á næsta stig og við ýtt hvort öðru áfram alla leiðina. Bæði lið hafa þurft að vera á tánum því ef annað liðið missteig sig, þá var hitt liðið að fara að nýta sér það. Það er frábært að við höfum getað ýtt hvort öðrum áfram allt tímabilið."
Margt breyst frá síðasta leik á Hlíðarenda
Blikar töpuðu síðasta leik sínum á Hlíðarenda, 0-1. Margt hefur breyst frá þeim leik en Agla María Albertsdóttir hefur komið til baka úr meiðslum og þá gengu Samantha Smith og Kristín Dís Árnadóttir í raðir Blika. Þær hafa allar verið stórkostlegar síðustu vikur.
„Síðast þegar við spiluðum hérna, þá vorum við slök. Við höfum lagað hluti og frá þeim leik höfum við orðið betri og betri. Það hefur margt breyst fyrir okkur síðan þá. Við höfum bætt meiru við liðið og ég er spenntur að koma hingað á laugardaginn að sækja þrjú stig."
Breiðablik þarf aðeins stig í leiknum en hugurinn er ekki þar. „Það hefur ekki einu sinni verið minnst á það annað en að fólk sé að spyrja spurningar um það. Við erum að koma hingað til að vinna. Það er ekki okkar stíll að leitast eftir jafntefli."
Nýtt áhorfendamet?
Nik vonast auðvitað til að áhorfendametið í efstu deild kvenna verði slegið á morgun. Metið er núna um 1200 manns.
„Ég ætla rétt að vona það (að metið verði slegið). Það á að gera mikið úr þessum leik. En það væri fínt að það væri meiri umfjöllun í gegnum allt tímabilið frá Stöð 2 (rétthafanum) og ÍTF, ekki bara að það sé einn stór leikur. Þá verður áhorfendafjöldinn stærri. Kvennaboltinn er að verða stærri og það á að auglýsa hann betur hér," segir Nik.
„Ég býst við að það verði í kringum 2000 manns á vellinum. Ef ekki, þá þurfum við sem land að líta inn á við og sjá hvað við erum að gera rangt. Ef tvö bestu lið landsins - sem hafa verið að spila frábærlega allt tímabilið - geta ekki fengið 2000 áhorfendur í leik sem skiptir öllu máli, þá er það vandamál."
Nik vonast til að stúkan verði græn á morgun en allt viðtalið má sjá í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir