Leao orðaður við Liverpool - Bayern lækkar verðmiðann á Coman - Nunez vildi fara í janúar
   mið 05. mars 2025 13:33
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Vangaveltur
Jákvæður höfuðverkur Arnars - Hvernig komast þeir allir fyrir?
Icelandair
Hvað gerir Arnar?
Hvað gerir Arnar?
Mynd: Fótbolti.net - Jónína Guðjörg Guðbjartsdóttir
Albert var gjörsamlega frábær með landsliðinu fyrir ári síðan.
Albert var gjörsamlega frábær með landsliðinu fyrir ári síðan.
Mynd: Mummi Lú
Orri Steinn hefur lék mjög vel með landsliðinu síðasta haust.
Orri Steinn hefur lék mjög vel með landsliðinu síðasta haust.
Mynd: EPA
Hákon er lykilmaður hjá Lille.
Hákon er lykilmaður hjá Lille.
Mynd: EPA
Jón Dagur er í erfiðri stöðu hjá Hertha Berlin.
Jón Dagur er í erfiðri stöðu hjá Hertha Berlin.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Andri Lucas og Ísak Bergmann gera sterkt tilkall.
Andri Lucas og Ísak Bergmann gera sterkt tilkall.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það styttist í að Arnar Gunnlaugsson velji sinn fyrsta landsliðhóp fyrir leikina gegn Kósovó í Þjóðadeildarumspilinu. Spilað er um sæti í B-deild í komandi Þjóðadeild.

Arnar glímir við ákveðinn höfuðverk þegar kemur að vali á hópnum og svo kannski ennþá meiri höfuðverk þegar hann stillir upp byrjunarliðinu - þá sérstaklega þegar horft er á miðjuna og svo sóknarlínuna. Margir gera tilkall í byrjunarliðið.

Orri Steinn Óskarsson og Andri Lucas Guðjohnsen tengdu mjög vel saman í Þjóðadeildinni á síðasta ári. Orri hefur verið í hlutverki hjá Real Sociedad og skorað nokkur mörk. Andri Lucas hefur kannski ekki alveg fundið taktinn með Gent í Belgíu.

Frá leikjunum síðasta haust koma þeir Albert Guðmundsson og Hákon Arnar Haraldsson inn í hópinn. Albert hefur verið að glíma við meiðsli en kom við sögu í síðasta leik Fiorentina. Hákon er svo að spila á stærsta sviðinu; í Meistaradeild Evrópu.

Jón Dagur Þorsteinsson sér ekki völlinn hjá Hertha Berlin en hefur sýnt hversu öflugur hann er í íslensku landsliðstreyjunni. Arnór SIgurðsson var ekki með í síðustu landsleikjum, er ekki kominn af stað með Malmö og því líkur á að hann verði ekki í hópnum.

Kristian Nökkvi Hlynsson minnti á sig með marki og stoðsendingu um helgina. Hann gerir tilkall til að vera einn af miðjumönnunum í hópnum, það sama gerir Þórir Jóhann Helgason sem hefur verið í nokkuð stóru hlutverki hjá Lecce í ítölsku úrvalsdeildinni.

Willum Þór Willumsson er lykilmaður hjá Birmingham sem er að valta yfir ensku C-deildina og Mikael Neville Anderson er jafnbesti leikmaður AGF í Danmörku. Mikael Egill Ellertsson er í stóru hlutverki hjá Venezia á Ítalíu, Stefán Teitur Þórðarson er að gera mjög vel með Preston á Englandi, Ísak Bergmann Jóhannesson er besti leikmaður Fortuna Düsseldorf og Jóhann Berg Guðmundsson minnti á sig með fallegu marki í Sádi-Arabíu fyrir helgi.

Það er spurning með meiðsli Arnórs Ingva Traustasonar sem hefur verið í stóru hlutverki í liðinu. Hann meiddist á dögunum og ekkert hefur verið gefið út um alvarleika meiðslanna. Hann er jafnbesti leikmaður Norrköping í Svíþjóð.

Það eru svo fleiri kostir í framherjastöðuna því Benoný Breki Andrésson hefur skorað í síðustu tveimur leikjum og Jón Daði Böðvarsson byrjaði vel með Burton .

Það eru svo öflugir leikmenn sem hafa ekki verið nefndir í þessari samantekt til þessa. Leikmenn á borð við Sævar Atla Magnússon, lykilmann Lyngby, Gylfa Þór Sigurðsson, markahæsta leikmann í sögu landsliðsins, Brynjólf Andersen Willumsson sem spilar í hollensku úrvalsdeildinni og Júlíus Magnússon sem keyptur var til Elfsborg í vetur eftir að hafa orðið norskur bikarmeistari.

Stóra spurningin er kannski hvernig leikkerfi Arnar ætlar að spila? Ætlar hann að koma sóknarmönnum fyrir í kantstöðum? Verður þetta 4-5-1, 4-4-2, 4-3-3, jafnvel 3-5-2?

Er hægt að fá Albert til að spila á kantinum eða þarf Andri Lucas að víkja? Þetta kemur allt í ljós á næstunni.

Hákon og Albert geta spilað sem fremstu menn á miðju en Andri Lucas og Orri Steinn eru meiri framherjar. Til gamans setti fréttaritari upp mögulegt byrjunarlið í fyrri leiknum gegn Kósovó.



Fyrri leikurinn gegn Kósovó fer fram í Kósovó og seinni leikurinn, heimaleikur Íslands, fer fram í Murcia á Spáni.
Athugasemdir
banner
banner