Leikmaður Atalanta orðaður við Man Utd - Ferguson gæti farið til West Ham - Liverpool og PSG reyna við Cherki
   mið 05. ágúst 2015 10:00
Elvar Geir Magnússon
Laugi: Höfum farið vel yfir tapleikinn í fyrri umferðinni
FH - Valur í kvöld
Guðlaugur Baldursson og Heimir Guðjónsson.
Guðlaugur Baldursson og Heimir Guðjónsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Laugi útilokar ekki að Guðmann verði í hóp.
Laugi útilokar ekki að Guðmann verði í hóp.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
14. umferð Pepsi-deildarinnar fer fram í kvöld. Stórleikur umferðarinnar er viðureign FH og Vals sem sýndur verður beint á Stöð 2 Sport.

„Við erum spenntir fyrir því að mæta Val. Við töpuðum fyrir þeim illa í fyrri umferðinni. Við erum spenntir fyrir því að reyna við þá aftur og sjá hvort við getum ekki gert betur," segir Guðlaugur Baldursson, aðstoðarþjálfari FH.

Valur vann 2-0 sigur þegar þessi lið áttust við í fyrri umferðinni en þjálfarateymi FH hefur skoðað þann leik vel.

„Við erum búnir að fara yfir þann leik og sjá hvað við gerðum illa og eitthvað gerðum við vel líka. Við teljum okkur hafa fundið leiðir til að laga það sem illa fór. Bæði lið hafa samt auðvitað þróast og breyst síðan þá svo við höfum skoðað meira en þennan leik."

Takist FH að vinna Val í kvöld verður Hlíðarendaliðið sex stigum á eftir FH-ingum.

„Við horfum til þess líka. Ef við vinnum setjum við smá bil milli þessara tveggja liða. Það væri frábært ef okkur tækist það. Valsliðið er virkilega gott lið, vel spilandi og vel skipulagt. Það er augljóst að Óli og Bjössi hafa gert frábæra hluti á Hlíðarenda. Það er komið gott handbragð á allt hjá þeim og Valsliðið er eitt það besta í deildinni í dag, það er ekki nokkur spurning um það," segir Guðlaugur.

Kassim og Lennon að snúa aftur
FH-ingar fengu smá frí um verslunarmannahelgina eftir talsvert leikjaálag.

„Andinn í hópnum er virkilega góður og hann hefur alltaf verið þannig þó einhverjir haldi eitthvað annað. Andinn í liðinu og hjá öllum í kring er virkilega góður."

Það hefur verið talsvert um meiðsli hjá FH-ingum en Heimir Guðjónsson, þjálfari FH, sagði eftir sigurinn gegn Keflavík í síðustu umferð að Kassim Doumbia og Steven Lennon verði báðir klárir fyrir leikinn gegn Val. Sam Hewson er enn á meiðslalistanum en Laugi útilokar ekki að Guðmann Þórisson verði í hópnum í kvöld.

„Við erum að skríða saman. Hewsie verður áfram frá en aðrir eru valmöguleiki í einhverri mynd. Það er að rætast úr þessum málum eftir smá ólukku. Menn eru að koma til baka. Guðmann er ólíkindatól og það er allt mögulegt með hann," segir Guðlaugur.

miðvikudagur 5. ágúst
18:00 ÍBV-Fylkir (Hásteinsvöllur)
19:15 Víkingur R.-ÍA (Víkingsvöllur)
19:15 FH-Valur (Kaplakrikavöllur)
19:15 Leiknir R.-Stjarnan (Leiknisvöllur)
19:15 Fjölnir-KR (Fjölnisvöllur)
19:15 Breiðablik-Keflavík (Kópavogsvöllur)

Allir leikir verða í beinum textalýsingum hjá okkur.
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner
banner