„Þetta var mjög auðvelt. Þetta var bara eins og létt æfing. Andstæðingurinn var ekki uppi á marga fiska en þetta var góður 4-0 sigur," sagði Tryggvi Guðmundsson, sérfræðingur Fótbolta.net um 4-0 sigur Íslands á Liechtenstein í kvöld.
Þetta var síðasti leikur Íslands áður en liðið heldur á EM í Frakklandi á morgun.
Þetta var síðasti leikur Íslands áður en liðið heldur á EM í Frakklandi á morgun.
„Kolbeinn, Eiður og Alfreð skoruðu og það er fínt að taka þetta með sér inn í mótið. Menn voru eðlilega ekki að fara á fullum krafti í tæklingarnar, menn vilja ekki meiða sig í þessum leik, rétt fyrir mót. Gylfi var í fyrsta eða öðrum gír og það var smá ryð í sendingunum hjá Aroni. Það kemur vonandi með fleiri æfingum."
„Þetta var góður sigur en við erum ekki að fara að stjórna leikjum svona í Frakklandi. Það væri óskandi en það er ekki að fara að gerast."
Alfreð Finnbogason og Kolbeinn Sigþórsson byrjuðu saman frammi í kvöld og Tryggvi reiknar með að þeir byrji saman í fremstu víglínu gegn Portúgal á þriðjudaginn í næstu viku.
„Mér finnst það alveg líklegt. Þeir settu hann báðir, þó að það hafi verið auðveld mörk. Menn þurfa að vera á réttum stað á réttum tíma. Ég myndi stóla á þá tvo. Þeir eru báðir marksæknir og hættulegir inni í teig andstæðinganna. Við þurfum á því að halda," sagði Tryggvi.
Hér að ofan má sjá spjallið við Tryggva í heild.
Athugasemdir
























