"Já það segirðu satt. Þetta var rólegur dagur á skrifstofunni," sagði landsliðsmarkvörðurinn Sandra Sigurðardóttir um fullyrðingu blaðamanns þess efnis að hún hafi oft haft meira að gera í markinu en í 8-0 sigri Íslands gegn Makedóníu í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 8 - 0 Makedónía
"Ég veit ekki alveg hvað ég snerti boltann oft en gott gisk er svona fimm sinnum, jafnvel sex sinnum."
Makedónar sköpuðu sér engin færi í leiknum.
"Þær ógnuðu ekki neitt og virtust ekkert ætla að skora. Þær voru bara að dóla sér þarna í rólegheitum."
Þá segir Sandra að sigurinn hefði getað verið stærri. "Við hefðum átt að skora fullt af mörkum en stundum er erfitt að skora í svona leikjum. Það er samt gott að klára þetta."
Ísland er að öllum líkinfdum á leið á sitt þriðja Evrópumót í röð og Sandra segir stefnuna setta á að gera betur nú en árið 2013 þegar Ísland komst í 8-liða úrslitin. "Auðvitað ætlum við að gera betur. Liðið er að bæta sig heilan helling og auðvitað setjum við kröfur á okkur fyrir mótið."
Að lokum segist Sandra ánægð með mætinguna. "Ég er mjög ánægð með mætinguna. Það var frábært að fá allt þetta fólk hingað sem var gargandi og að hvetja okkur allan tímann. Ég er mjög þakklát,"
Athugasemdir

























