„Mér fannst við ekki góðir, miðað við síðasta leik hjá okkur þar sem við vorum mjög þéttir , skipulagðir og mikill vilji í okkur þá fannst mér það ekki vera til staðar í dag."
Sagði Guðlaugur Baldursson þjálfari Keflavíkur eftir 2-0 tap sinna manna gegn Fylki í dag.
Sagði Guðlaugur Baldursson þjálfari Keflavíkur eftir 2-0 tap sinna manna gegn Fylki í dag.
Lestu um leikinn: Fylkir 2 - 0 Keflavík
Fylkir voru töluvert betri aðilinn í dag og fengu urmul af færum sem þeir nýttu ekki.
„Fylkir fékk fullt af möguleikum í dag, ég er alveg sammála því og hefðu getað gert fleiri mörk. Mér fannst við vera mjög daprir í fyrri hálfleik og mér fannst við koma beittari inn í seinni hálfleikinn, en eftir því sem við færðum okkur framar á völlinn þá fengu þeir skyndisóknir."
Annað mark Fylkis drap leikinn og Keflavík gerðu sig aldrei líklega til að skora eftir það.
„Við fáum annað markið á okkur eftir hornspyrnu og það var skrambi súrt að fá það mark á sig og þá fannst mér svona loftið leka úr blöðrunni hjá okkur."
Jeppe Hansen og Sigurbergur Elísson eru báðir að glíma við meiðsli og voru ekki með í dag.
„Þeir eru ennþá meiddir og það styttist nú í þá báða, en ég á þó ekki von á því að þeir verði klárir fyrr en eftir landsleikjahlé.
Næstu þrír leikir Keflavíkur eru á heimavelli gegn mörgum best mönnuðu liðum deildarinnar.
„Það leggst bara vel í mig en við þurfum að bæta við okkur. Mér fannst við daprir í dag og ég hef sagt það að þegar maður er sleginn svona niður þá þarf maður að rísa upp og alvöru íþróttamenn gera það."
Keflavík eru langneðstir í deildinni og það var mikið andleysi í liðinu í dag.
„Mér hefur fundist við hafa fulla trú á verkefninu og mikill og góður andi í okkur en í dag fannst við ekki ná að búa til þá stemmingu, vilja og þá trú sem við viljum hafa í hverjum einasta leik."
Sagði Laugi, en nánar er rætt við hann hér að ofan.
Athugasemdir