„Hundfúllt að tapa eins og alltaf. Óvenju sárt hvernig við töpuðum þessu, við erum ekki sátt með sjálfa okkur í dag. Það var hugarfar sem hefði átt að vera betra og við verðum að laga fyrir næstu leiki," sagði Jóhann Kristinn Gunnarsson þjálfari Þór/KA eftir tap liðsins gegn Breiðablik á Akureyri í dag.
Lestu um leikinn: Þór/KA 0 - 3 Breiðablik
„Þetta var ekki góður fótboltaleikur. Alveg sama þótt sigurliðið hafi verið á því að þetta væru fínar aðstæður en þær voru það ekki. Það sást á leiknum en það er engin afsökun, við áttum að mæta með betra hugarfar og vera tilbúnar í baráttuna þó að mér fannst liðið hafa lagt sig fram. Það sást að völlurinn fór mikið í lappirnar á leikmönnum en við eigum að gera betur sóknarlega sérstaklega," sagði Jóhann Kristinn.
„Það er ótrúlegt að mark eitt og tvö hjá þeim telji, þetta var bara einhver sirkus. Við vorum ekki nógu góðar í dag og þeirra langbesti maður virtist díla best við völlinn sem hún ólst nú upp á. Hún var okkur erfið og var stærsti munurinn á þessu."
„Númer eitt að tapa leiknum og númer tvö að tapa honum á heimavelli. Númer þrjú sem situr í mér er hvernig við töpum honum, við eigum að vera sterkari andlega. Við verðum að taka ákvörðun, ætlum við að vera keppa við þessi lið. Við erum búnar að tapa tveimur leikjum, á móti Val og Breiðablik, við verðum að vinna þessi lið ef við ætlum að keppa á toppnum, ef við vinnum ekki þá þýðir ekkert annað en að sætta sig við að vera á eftir þeim. Við höfum sem betur fer annað tækifæri til að mæta Val og Breiðabliki í sumar, það er okkar að vinna í þessu og gera betur í þeim leikjum," sagði Jóhann Kristinn að lokum.