Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
   mán 09. janúar 2023 13:16
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Skrítið að vera í limbói - „Höfum gefið okkur meiri tíma í það"
Lengjudeildin
Úr leik hjá Ægi síðasta sumar.
Úr leik hjá Ægi síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Nenad Zivanovic og Baldvin Már Borgarsson, þjálfarar Ægis.
Nenad Zivanovic og Baldvin Már Borgarsson, þjálfarar Ægis.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Það er óvissa með Kórdrengi fyrir næstu leiktíð.
Það er óvissa með Kórdrengi fyrir næstu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Úr leik Ægis og KA í Mjólkurbikarnum á síðustu leiktíð.
Úr leik Ægis og KA í Mjólkurbikarnum á síðustu leiktíð.
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
„Ég heyrði fyrst af þessu í lok október að þetta væri möguleiki og hef síðan þá verið að pæla í þessu þar sem þetta var auðvitað líklegast að fara að hafa áhrif á okkar stöðu."

Þetta segir Baldvin Már Borgarsson, spilandi aðstoðarþjálfari Ægis, í samtali við Fótbolta.net um stöðuna sem er komin upp er varðar Kórdrengi.

Sjá einnig:
Hvað gerist ef Kórdrengir taka ekki þátt í sumar?

Í gær var fjallað um það hvað myndi gerast ef Kórdrengir yrðu ekki með í Lengjudeildinni í sumar. Óvissa er um þeirra þátttöku, liðið er án þjálfara, án heimavallar og samkvæmt upplýsingum Fótbolta.net hefur liðið ekki hafið æfingar. Félög í deildinni þurfa að skila inn upplýsingum fyrir leyfiskerfi KSÍ eigi síðar en 15. janúar.

Hvaða lið mun fara upp ef Kórdrengir taka ekki þátt? Það er óljóst samkvæmt regluverki KSÍ en það verður annað hvort Ægir eða KV. Það má skilja það þannig að ef Kórdrengir draga sig úr keppni þá er Ægir fyrsti kostur í að taka sætið, en ef Kórdrengir falla hinsvegar á leyfiskerfinu þá er KV fyrsti kostur. Áhugaverð staða og Kórdrengir gætu þá í raun haft það í sínum höndum hvort liðið yrði í Lengjudeildinni ef þeir verða ekki með.

Baldvin viðurkennir að það sé skrítið að vera í þessari stöðu þegar undirbúningstímabilið á að vera komið á fleygiferð.

„Já, það er ekki hægt að segja annað. Eins og staðan er í dag erum við að undirbúa liðið fyrir 2. deild því það er ekkert annað staðfest í þessu. Þegar við erum að semja við leikmenn er það á forsendum 2. deildar og allt þess háttar, ef svo fer að við verðum sendir upp fáum við talsvert minni tíma til þess að undirbúa það en önnur félög," segir hann.

„Eins og staðan er núna eigum við fyrsta leik í Lengjubikar gegn Augnablik eftir rúmar fimm vikur en ef þetta snýst við eigum fyrsta leik í Lengjubikar gegn Breiðablik eftir rúmar fjórar vikur. Það er smá bil þarna á milli en yrði bara skemmtileg áskorun fyrir okkur að eiga við."

Það er og verður alltaf erfitt
Ægismenn voru nýliðar í 2. deild síðasta sumar en spiluðu vel heilt yfir og lentu í þriðja sæti. Er félagið tilbúið að taka stökkið núna upp í Lengjudeildina?

„Það er og verður alltaf erfitt en við vinnum út úr því sem við höfum í höndunum."

„Við erum að ganga frá nokkrum lausum endum og höfum gefið okkur smá meiri tíma í það vegna stöðunnar í þessu máli en teljum okkur geta teflt fram samkeppnishæfu liði í Lengjudeild ef við spilum þar, annars munum við auðvitað setja stefnuna á að koma okkur í Lengjudeildina 2024, það er ekkert leyndarmál," segir Baldvin og bætir við:

„Í fyrra unnum við Fylki í bikarnum sanngjarnt svo við höfum sýnt og sannað bæði fyrir sjálfum okkur og öðrum að við erum með gott fótboltalið."

Svolítið skrítið ákvæði
Regluverkið er þannig að ef Kórdrengir taka ekki þátt, þá hafa þeir það í raun í sínum höndum hvort Ægir eða KV fer upp í staðinn. Um það ákvæði í regluverkinu segir Baldvin:

„Okkur finnst þetta svolítið skrítið ákvæði, sérstaklega þar sem þetta hefur ekki sömu áhrifin alla leið niður kerfið. KFG og Ýmir fara upp sama hvað ef Kórdrengir verða ekki með, en KV getur fengið Lengjudeildarsætið sem 11. sæti í fyrra eftir því hvernig framkvæmdind á þessu verður hjá Kórdrengjum, en gott og blessað -svona virkar reglugerðin."

„Það er bara sorglegt hvernig er að fara fyrir Kórdrengjum ef rétt reynist, erfitt að fagna því einhvern veginn að fara upp án þess að hafa í raun unnið sér rétt á því eins og venjan er. Maður vonaði að þeir myndu ná að vinna úr sínum málum og maður væri ekki fastur í þessu limbói sem hefur verið síðustu vikur. Ég óska þeim góðs gengis, sama hver lending félagsins verður. Logi og Davíð Smári unnu frábært starf sem er leiðinlegt að sjá fara svona."

Það hefur tekið mjög á Kórdrengi að missa Davíð Smára Lamude til Vestra en hann var gífurlega mikilvægur fyrir félagið. Fótbolti.net hefur reynt að ná tali af Loga Má Hermannssyni, formanni Kórdrengja í dag, en án árangurs.

Sjá einnig:
Féllu en gætu samt haldið sæti sínu - Hvað segir KV um stöðuna?
Athugasemdir
banner
banner
banner