fim 09. mars 2023 06:00
Ívan Guðjón Baldursson
Vanda talaði um mikilvægi kvenna í pallborðsumræðu í Portúgal
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð

Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ, tók þátt í pallborðsumræðum um konur í fótboltaheiminum á viðburði hjá portúgalska knattspyrnusambandinu.


Vanda ræddi málin ásamt Nuria Martinez Navas, liðsstjóra A-landsliðs karla hjá Spáni sem var jafnframt eini kvenmaðurinn sem sat á varamannabekk á HM í Katar, og Raquel Rosa, hagfræðingi og umboðsmanni í fótboltaheiminum.

Vanda talaði um mikilvægi þess að konur tækju þátt í ákvarðanatöku á öllum stigum fótboltans. Hún benti á að það þyrfti að taka meðvitaða ákvörðun um að hafa konur í stjórnunarstöðum til að jafna kynjahlutföllin í fótboltaheiminum. Þannig var það gert á Íslandi.

Hún talaði einnig um vinnuna sem þarf enn að vinna í baráttu kvenna innan fótboltaheimsins. Hvers vegna heitir heimsmeistaramótið HM annars vegar og HM kvenna hins vegar? Hvers vegna var Nuria Martinez Navas kynnt sem liðsstjóri A-landsliðs Spánar, en ekki sem liðsstjóri karlaliðs Spánar?

Um 170 manns, ásamt tveimur yngri landsliðum Portúgals, hlustuðu á viðburðinn sem haldinn var í glæsilegum höfuðstöðvum portúgalska sambandsins.

Til gamans má geta að ársþing KSÍ 2023 fór fram í íþróttahúsinu á Torfnesi, Ísafirði, á dögunum og voru 21 af 76 þingfulltrúum konur, sem er nýtt met. Fyrra met var frá 2022 þegar 20% fulltrúa voru kvenkyns en í ár eru það 28% fulltrúa.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner