mán 10. janúar 2022 18:43
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Segir afrek Blika stórmerkilegt - „Myndi deyja fyrir svona lið í Garðabæ"
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorkell Máni Pétursson, sem hefur starfað sem sérfræðingur í kringum efstu deild karla síðustu ár, er á því máli að Óskar Hrafn Þorvaldsson sé besti þjálfari landsins.

Óskar er þjálfari Breiðabliks. Honum hefur ekki tekist að vinna stóra titla til þessa en Máni er mjög hrifinn af því sem hann hefur verið að gera.

„Ég er mjög hrifinn af því sem Óskar Hrafn er að gera," sagði Máni í Chess After Dark. „Það sem Óskar er að gera og hvernig hann er að spila fótbolta, mér finnst aðdáunarvert. Ég elska þetta."

Máni telur að það sé ekki lykilatriði fyrir Blika að vinna titla. Félagið leggur mikla áherslu á að þróa sína eigin leikmenn sem eru oft seldir erlendis.

„Það er margt meira í fótbolta og íþróttum en að vinna titla. Horfum á þetta Blikadæmi. Þeir selja mest af leikmönnum út, sumir koma til baka og aðrir ekki. Blikar, þeir sem er aldir upp hjá þeim í Kópavogi, skora fleiri mörk en Víkingar síðasta sumar. Strákar sem eru búnir að fara á Shell-mótið og N1-mótið í grænum treyjum, þeir skora svona mikið."

„Hinn almenni Bliki á ekki skilið Breiðablik fótboltafélagið, finnst mér. Hvar er stuðningurinn? Ég myndi deyja fyrir svona lið í Garðabæ. Ef ég ætti svona lið í Garðabæ þar sem ég væri með svona mikið af uppöldum leikmönnum... það eru einhverjir tveir, þrír í Grænu Pöndunni sem eru eitthvað að sveifla grænum treyjum og syngja sama stuðningsmannalagið."

„Blikarnir eru að selja leikmenn út, þeir eru að búa til eitthvað eftir sínum grunni, sínum gildum og sínum tilgangi. Titill getur komið og það er bara frábært ef það gerist. En staðreynd málsins er að þetta er afrek sem verður örugglega aldrei slegið, það sem Blikarnir gerðu í fyrra. Þetta hefur ekki fengið nógu mikla athygli."

Hann er þá að tala um afrekið að uppaldir Blikar skoruðu meira en öll önnur lið í efstu deild. Máni er hrifinn af því sem Blikar hafa verið að gera. Hann er Stjörnumaður og er ekki eins hrifinn af stuðningsveitinni sem Blikar hafa upp á að bjóða.

„Það væri frábært ef stuðningsfólk Breiðabliks gæti dregið athygli að þessu, en þeir koma á svona tvo, þrjá leiki... Græna Pandan er einhver lélegasta stuðningssveit landsins."

Hægt er að horfa á Chess After Dark í heild sinni hér að neðan.


Athugasemdir
banner
banner