Amorim bíður eftir leyfi - Nkunku og fleiri orðaðir við Man Utd - Endo eftirsóttur
   fös 11. október 2024 10:00
Brynjar Ingi Erluson
Ljósglæta í myrkrinu - „Þetta var fyrir þig“
Ivan Jovanovic
Ivan Jovanovic
Mynd: Getty Images
Leikmenn tóku mynd af sér með treyju George Baldock eftir leikinn
Leikmenn tóku mynd af sér með treyju George Baldock eftir leikinn
Mynd: Getty Images
„Ég vil senda fjölskyldu George Baldock samúðarkveðjur fyrir hönd allra. Þetta var svartur dagur og andrúmsloftið var erfitt. Það segi ég þó með vissu að á meðan strákarnir spila fyrir landsliðið mun George vera með okkur og í hug okkar allra. Kannski gaf þetta leikmönnum hvatningu fyrir leikmenn til þess að halda minningu hans á lofti með frammistöðu eins og þessari,“ sagði Ivan Jovanovic, þjálfari gríska landsliðsins, eftir sögulega 2-1 sigurinn á Englandi á Wembley í gær.

Baldock fannst látinn á heimili sínu á miðvikudag en krufning leiddi það í ljós að hann hafi drukknað.

Hann var á mála hjá gríska félaginu Panathinaikos og átti þá tólf A-landsleiki með Grikklandi, en hann spilaði sinn fyrsta landsleik árið 2022.

Bæði landsliðin léku með sorgarbönd á Wembley í gær og var haldin mínútuþögn fyrir leikinn. Fréttirnar höfðu veruleg áhrif á gríska hópinn, sem vildi þó heiðra minningu Baldock með stórkostlegri frammistöðu, sem og liðið gerði.

„Þetta var erfitt. Ef þú hefðir farið inn í búningsklefann eftir leik þá hefðir þú séð að andrúmsloftið var fremur þögult. Allir voru að hugsa um það sem gerðist á miðvikudag. Þetta var erfitt og svartur dagur með ljósglætu. Við munum alltaf varðveita minningu stráksins.“

„Leikurinn breytist ekki. Það var erfitt að halda einbeitingu og spila góðan leik gegn frábæru liði. Allt í allt var þetta frábær leikur og við létum Englendinga þjást.“


Eftir leikinn birti gríska fótboltasambandið úrslitin og mynd af Baldock en undir myndinni stóð „Þetta var fyrir þig.“ Sumir leikmenn landsliðsins töluðu um það eftir leikinn að þeir fundu fyrir nærveru Baldock í leiknum og að hann hafi verið þessi umtalaði tólfti maður á Wembley.

„Mér fannst sigurinn sanngjarn svona á heildina litið. Þetta er þéttur hópur og ég hef það á tilfinningunni að hópurinn sé að leita að markmiðum sínum og takist að gera greinarmun á hlutunum sem er lykilatriði í því að landsliðið nái árangri.“

„Sigurinn á Wembley var gríðarlega mikilvægur, en þetta er líka sigur sem setur okkur á aðra vegferð með meiri skyldum og skapar auka pressu fyrir okkur í framhaldinu. Þetta er hins vegar stærsti sigurinn á mínum ferli,“ sagði Jovanovic í lokin.


Athugasemdir
banner
banner
banner