![Lengjudeildin](/images/leng_150x150.png)
Þróttur endaði í 7. sæti Lengjudeildarinnar í fyrra á fyrsta tímabili Sigurvins Ólafssonar, Venna, við stjórnvölinn. Þróttarar, sem unnu fyrsta leik í Lengjubikarnum um helgina, hafa verið rólegir á félagaskiptamarkaðnum í vetur, breytingarnar á hópnum eru ekki miklar. Tæpir þrír mánuðir eru í að Lengjudeildin hefjist og var rætt við Venna i dag.
„Það er bara gleði, það er smá stökkbreyting á undirbúningstímabilinu núna, spenningur að Lengjubikarinn sé farinn af stað, það er aðeins meiri alvara heldur en Reykjavíkurmótið. Hjá okkur er bara allt í eðlilegri þróun á þessu lengsta undirbúningstímabili í heimi," segir Venni.
Ígildi nýrra leikmanna
Jakob Gunnar Sigurðsson er eina nýja nafnið á 'komnir' listanum hjá Þrótti.
„Hann er í rauninni eini nýi leikmaðurinn. Ég var ánægður með að við að kláruðum að semja við lykilmennina okkar á síðasta tímabili og því er mjög lítil velta. Flestir sem eru farnir frá okkur voru eiginlega farnir frá okkur á miðju tímabili eða voru á láni, þannig að við vissum stöðuna. Ég sá alveg fyrir mér strax að móti loknu í fyrra að við yrðum með svipað lið og við myndum svo púsla inn í það."
„Eins og ég man þetta hefur verið mikil leikmannavelta hjá Þrótti og menn þurft að byrja upp á nýtt milli tímabila. Mér fannst komin fín festa í þetta, en auðvitað viljum við aðeins bæta í og höfum augun opinn fyrir því að bæta við."
„Það eru svo leikmenn sem eru ígildi nýs leikmanns. Baldur (Hannes Stefánsson) var ekkert með í fyrra, sleit krossband fyrir um ári síðan. Hann var algjör lykilmaður áður en hann meiddist, frábær leikmaður sem bætist inn í hópinn. Svo er Villi Kaldal (Vilhjálmur Kaldal Sigurðsson) að fara taka heilt tímabil með okkur núna, er að klára nám. Við vorum með Eið Jack Erlingsson á láni í fyrra, hann er kominn til baka."
Vilja hafa sem flesta Þróttara inni á vellinum
Ertu að horfa á einstakar stöður sem þú vilt bæta hópinn í?
„Við erum vel settir með hafsenta og miðjumenn, ég er með augun á sóknarmönnum og þess vegna var nú jakob fenginn. Ég er líka að horfa í hvar ungu Þróttararnir geta spilað, því það er ekkert leyndarmál að planið er að halda Þrótturum sem mest inn á vellinum."
Öflugur markaskorari
Talandi um Jakob Gunnar, hvað gerir hann fyrir ykkur?
„Hann fer í þessa samkeppni um að vera oddurinn í sóknarleiknum. Hann skorar mörk. Við þjálfarar pælum í öllum andskotanum en þegar uppi er staðið þá snýst þetta um að skora meira en andstæðingurinn, að skora mörkin er eitt það erfiðasta í bransanum. Hann allavega kunni það, og rúmlega það, í fyrra, reyndar í deild neðar. Hann er öflugur markaskorari. Við erum líka með Liam (Daða Jeffs) sem skoraði mikið fyrir okkur í fyrra. Það eru auðvitað fleiri sem geta skorað, en Jakob kemur til með að þykkja hópinn fram á við og búa til meiri samkeppni. Við viljum vera við öllu búnir því það getur allt gerst."
Sárt að missa Jörgen en eru menn sem fylla skarðið
Jörgen Pettersen, lykilmaður hjá Þrótti síðustu ár, fór frá félaginu og samdi við ÍBV í haust. Hvernig fylla Þróttarar í hans skarð?
„Það var mjög sárt að missa Jörgen, við gátum í raun ekki gert neitt í því, ég skil hann vel að vilja taka þetta stökk upp og fara á þessa yndislegu eyju. Á miðju tímabili í fyrra fengum við Unnar Stein Ingvarsson til okkar og hann spilar svipaða stöðu. Svo eru líka ungir leikmenn orðnir árinu reyndari; Brynjar Gautur Harðarson og Benoný Haraldsson sem dæmi. Við erum með mjög spennandi kosti á miðsvæðinu sem eru að vaxa. Ég er ekki á flæðiskeri staddur, en klárlega sárt að missa Jörgen."
Erlendu leikmennirnir, Kostiantyn Iaroshenko og Izaro Abella, verða ekki áfram hjá Þrótti en samningar þeirra runnu út í lok síðasta tímabils. Þá verður Samúel Kári Kristinsson ekki með Þrótti á komandi tímabili. Venni segir að reynsluboltinn Þórir Guðjónsson stefni á að vera áfram með Þrótti á komandi tímabili.
Hægt að byggja á síðasta tímabili
Hvað vilja Þróttarar gera í sumar?
„Það er sama klisjan, vaxa. Þróttur er lið sem var á niðurleið í 5-6 ár, frá 2017/18 og endaði á því að falla niður í 2. deild. Það er sárt fyrir stoltið og klúbbinn. Það er búið að vera stígandi núna í þrjú tímabil og við viljum halda því við. Það er núna undir leikmönnunum og mér komið að sýna hversu langt við erum komnir, grunnmarkmiðið er að gera betur en í fyrra varðandi lokastöðu í deildinni."
„Við erum búnir að skoða vel hvernig við spiluðum í fyrra og flestallar tölurnar voru í topp 5 í deildinni, nema þær sem skipta mestu máli: stigafjöldinn og sætið. Við ætlum að byggja á því, hafa trú á því að þetta sé rétta leiðin. Við þurfum að vera aðeins klókari og meiri refir í því að ná í stigin. Þetta er mjög ungt lið og hlutirnir gerast ekki á einni nóttu."
„Sanna að þetta hafi ekki bara verið einhver bóla"
Kári Kristjánsson átti mjög gott tímabil í fyrra með Þrótti og vakti athygli félaga í efstu deild. Valur og ÍA hafa horft til hans en tilboðin hafa ekki heillað Þróttara nóg og því er hann áfram í Laugardalnum. Kári hefur haldið áfram að standa sig vel í vetur. Venni hefur ekki áhyggjur af því að missa hann fyrir mót.
„Ég hef ekki áhyggjur af því að missa hann fyrir mótið. Ég skil vel að menn sýni Kára áhuga. Ég held það sé mjög gott fyrir hann, og fleiri stráka, að sýna sig og sanna áfram. Það er oft ár tvö sem er lykilatriðið, að sanna að þetta hafi ekki bara verið einhver bóla - einhver grís. Hann hefur reyndar sýnt það og sannað á öllum æfingum og leikjum hingað til að hann er ennþá að vaxa. Ég held það sé bara gott fyrir hann, og auðvitað okkur, að hann leiði okkur áfram og smiti í kringum sig," segir Venni.
Athugasemdir