'Það var kannski erfitt fyrir mömmu að sleppa mér út, en ég var alltaf á því að ég vildi fara út, og pabbi var á því líka'
Arnór Smárason lagði skóna á hilluna í lok tímabilsins í Bestu deildinni eftir 20 ára feril. Ævintýrið hófst í yngri flokkum ÍA en hann yfirgaf félagið árið 2004 og hélt til Heerenveen í Hollandi. Hann sneri aftur heim í ÍA haustið 2022 og lauk ferlinum með tveimur tímabilum sem fyrirliði Skagamanna.
Hann var leikmaður Vals tímabilin 2021-22 og á dögunum var tilkynnt að hann væri að mæta aftur til starfa hjá félaginu, nú sem yfirmaður fótboltamála. Hann mun ræða nýja starfið í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net sem verður í beinni á X-977 í hádeginu á morgun.
Hér í þessari grein er stiklað á stóru yfir feril Arnórs og hann spurður út í félagaskipti, liðsfélaga og ýmislegt annað.
Hann var leikmaður Vals tímabilin 2021-22 og á dögunum var tilkynnt að hann væri að mæta aftur til starfa hjá félaginu, nú sem yfirmaður fótboltamála. Hann mun ræða nýja starfið í viðtali í útvarpsþættinum Fótbolti.net sem verður í beinni á X-977 í hádeginu á morgun.
Hér í þessari grein er stiklað á stóru yfir feril Arnórs og hann spurður út í félagaskipti, liðsfélaga og ýmislegt annað.
„Fótboltinn var eiginlega alltaf númer eitt hjá mér. Ég var líka í sundi og golfi þegar ég var ungur og lærði á hljóðfæri í tónlistarskólanum. Ég var mjög aktífur sem barn en fótboltinn var alltaf númer eitt. Eftir Shell-mótið '98 þá fór maður að pæla í því að maður væri virkilega góður í fótbolta og það væri raunhæfur möguleiki að verða atvinnumaður. Ef ég hefði ekki orðið fótboltamaður þá hefði ég kannski farið á fullu í golfið, en fótboltinn var og hefur alltaf verið númer eitt, tvö og þrjú," segir Arnór. Hann var valinn besti leikmaður Shell-mótsins á sínum tíma og margir vissu að þarna væri á ferðinni mjög efnilegur fótboltamaður.
Erfitt að velja á milli
Arnór var atvinnumaður erlendis í 18 ár, lék með Heerenveen í Hollandi, Esbjerg í Danmörku, Helsingborg og Hammarby í Svíþjóð, Torpedo Moskvu í Rússlandi, Lilleström í Noregi og lék svo með Val og ÍA á Íslandi.
Fyrir utan ÍA, hvar var skemmtilegast að vera?
„Ég tek fyrstu sex árin á ferlinum með Heerenveen, tek þar allan tröppuganginn; U17 upp í aðalliðið. Það var rosalega skemmtilegur tími sem mótaði mig rosalega mikið sem manneskju. Maður þurfti að fullorðnast mjög fljótt, læra mjög fljótt á lífið. Ég met tímans í Hollandi mjög mikils, lærði heilmikið í sterkri akademíu Heerenveen. Þetta var rosalega flottur og stór klúbbur að koma inn í á þeim tíma. Það var gaman að ná að taka allan tröppuganginn, þegar maður horfir til baka þá er maður stoltur af því. Það var geðveikt að vera hluti af bikarmeistaraliðinu 2009, það var fyrsti titilinn í sögu félagsins og sturluð upplifun."
„Það var líka gaman að vinna titil með Esbjerg, var hluti af liði þar sem tapaði nánast ekki leik yfir hálfs árs tímabil, unnum nánast alla leiki sem við fórum í og skemmtum okkur þeim mun meira á milli leikja. Kjarninn þar af leikmönnum náði langt með sína ferla. Ég myndi segja að hópurinn hjá Esbjerg hafi verið sá skemmtilegasti."
„Heildarpakkinn hjá Hammarby, að búa í Stokkhólmi og stuðningsmennirnir, vá, fþeir eru á allt öðru „leveli" miðað við það sem maður á að þekkja annars staðar í Skandinavíu og víðar. Það var geðveikt að vera stór partur af því liði og vera fyrirliði þess á kafla."
„Það er erfitt að velja á milli þegar kemur að því að segja hvaða tími var skemmtilegastur. Það eru margar frábærar minningar sem maður tekur með sér," segir Arnór.
Alltaf þurft að hafa fyrir öllu
„Ég hef alltaf þurft að hafa fyrir öllu, ég var mjög efnilegur þegar ég var yngri, en ég þurfti alltaf að vera sanna mig í gegnum ferilinn. Ég fékk aldrei neitt upp í hendurnar, ég þurfti alltaf að koma með eitthvað til að sýna hvað ég gæti. Það mótaði hausinn, það herti mann og maður vissi hvað þyrfti að gera til að ná árangri. Sama hversu mörgum áföllum maður lenti í, þá lærði maður að komast í gegnum þau og þeim mun sætari urðu sigrarnir í kjölfarið. Maður lærði snemma að vera þolinmóður og leggja inn vinnuna, meðvitaður um að hún myndi skila sér til baka á einhverjum tímapunkti."
Snerist um þolinmæði
Arnór fór 16 ára gamall til Hollands. Þurfti hann ekkert að hugsa sig um þegar það stóð til boða?
„Í yngri flokkunum var ákveðið þríeyki; ég, Bjarni Viðars og Rúrik Gísla. Bjarni fór til Everton og ég og Rúrik fórum saman á reynslu til Heerenveen þegar ég var i 10. bekk. Þór Hinriksson fór með okkur þangað, sá mikli meistari. Við fórum á eina æfingu og okkur var boðinn samningur. Svo fórum við aftur út með fjölskyldum okkar og kíktum út."
„Mér og fjölskyldunni leist strax vel á Heerenveen og prógrammið þar. Það var kannski erfitt fyrir mömmu að sleppa mér út, en ég var alltaf á því að ég vildi fara út, og pabbi var á því líka. Ég fer svo áður en ég klára 10. bekk út til Heerenveen."
„Þetta snerist um að mæta þarna einbeittur, læra sem mest og vera þolinmóður. Ég kem inn í U17 og fer svo upp stigann, upp í U19 og tek svo eitt tímabil með varaliðinu þar sem ég næ að blómstra. Í kjölfarið kom tækifærið með aðalliðinu og ári seinna var ég orðinn byrjunarliðsmaður hjá toppbaráttuliði Heerenveen í hollensku úrvalsdeildinni. Þetta var þolinmæði, ég hefði kannski getað komið heim til að spila, en ég ákvað að taka þessa leið og hún skilaði sér fyrir mig."
„Hann var ekkert eðlilega góður"
Þegar Arnór fór út var Ari Freyr Skúlason hjá Heerenveeen og ári seinna kom Björn Jónsson út til félagsins. Ari er ári eldri en Arnór og Björn er svo tveimur árum yngri en Arnór.
„Ari Skúla var kominn á undan mér, það var geggjað að hafa Ara með sér úti og við höfum verið miklir félagar síðan. Það var geggjað að sjá hversu flottan feril hann átti."
„Ég bjó á hollensku heimili og í hinu herberginu var Lasse Schöne sem síðar fór til Ajax. Þegar Lasse flutti út þá kom Bjössi Jóns. Ég þekkti hann vel, spiluðum mikið saman upp yngri flokkana og ég þekkti fjölskylduna hans vel. Það var gaman að fá hann út, hann stóð sig ógeðslega vel og var kominn inn í aðalliðshópinn á síðasta tímabilinu mínu. Meiðsli settu einhver strik í reikninginn hjá honum."
„Hann fann sína fjöl í öðru og gengur vel þar. Hann fór að læra fatahönnun í Mílanó, ég heimsótti hann þangað sem var upplifun og ég fór á sýningu hjá honum í Reykjavík í haust. Bjössi er í toppmálum í þessu, en djöfull var hann góður. Hann var svona náttúrulega góður, oftar en ekki dúkkar hans nafn upp í hlaðvörpum þegar menn rifja upp gamla tíma, hann er orðinn svona „myth" og gaman að heyra sögur af honum. Þær eru allar sannar, hann var ekkert eðlilega góður."
Ákvað að fara aðrar leiðir
Áður en Arnór hélt til Hollands var hann með fjölskyldu sinni í eitt ár í Noregi og lék þar með unglingaliði félagsins. Var aldrei möguleiki að það yrði byrjunarreitur á ferlinum?
„Pabbi var í skóla í Molde 2002-03 og fjölskyldan flutti út, vorum þar í eitt ár. Það gekk vel hjá mér, var byrjaður 14 ára að spila með varaliðinu. Við vorum alveg í sambandi við Molde í kjölfarið, mér bauðst að koma til Molde þegar ég fór til Heerenveen og nokkrum sinnum eftir það á ferlinum. Það voru alveg tímapunktar sem Molde stóð til boða en ég ákvað að fara aðrar leiðir."
Mjög minnisstæð augnablik
Arnór varð bikarmeistari með Heerenveen og Esbjerg. Eru einhverjir aðrir leikir en þeir úrslitaleikirnir sem koma upp í hugann þegar hugsað er til baka?
„Augnablikið þegar við unnum Lengjudeildina í fyrra var mjög skemmtilegt, að hafa náð að snúa genginu við eftir allt sem gekk á í byrjun móts og að fá að lyfta Lengjudeildartitlinum fyrir framan mitt fólk var mjög gaman og eftirminnilegt."
„Nágrannaslagirnir í Stokkhólmi eru ofarlega á lista. Ég hvet alla sem hafa ekki farið að drífa sig á nágrannslag í Stokkhólmi, hættið að fara á bókasöfnin á Englandi og kíkið til Stokkhólms. Á þessum tíma sem ég var úti vorum við öflugir í þessum leikjum og unnum þá oftar en ekki. Maður náði að skoða nokkur mörk í þeim leikjum og þau augnablik eru mjög minnisstæð."
„Það að hafa fengið að spila með landsliðinu, ná að skora þrjú landsliðsmörk og fengið að spila með öllum þessum gæjum; fyrri hlutann með Eiði Smára, Hemma Hreiðars... endalaust af nöfnum sem ég gæti nefnt í viðbót og svo í seinni tíð með gullkynslóðinni okkar. Landsleikirnir urðu 26, hefðu getað orðið fleiri, en þeir verða aldrei teknir frá manni."
Engin eftirsjá
Er einhver eftirsjá tengd landsliðinu?
„Engin eftirsjá, en maður hefði sjálfur átt að gera betur til þess að verða stærri hluti af því. Það var undir manni sjálfum komið. Maður náði ekki að toppa á réttum tímum fyrir EM og HM, það hefði auðvitað verið gaman að vera með þar. Það var ekki undir neinum öðrum komið en sjálfum mér."
Man enginn eftir fjórða marki leiksins
Þriðja og síðasta landsliðsmark Arnórs kom í vináttuleik gegn Indónesíu ytra í janúar 2018. Hverjar eru minningarnar frá því verkefni?
„Þetta var geggjuð ferð, rosalega gaman að koma til Indónesíu. Við vorum þarna búnir að tryggja okkur inn á HM og þetta voru mikilvægir leikir fyrir okkur í hópnum. Þetta voru tveir leikir, minnir að hópnum hafi verið skipt upp og leikjunum skipt milli leikmanna. Fyrri leikurinn var í einhverju rigningarsvaði og við unnum 6-0. Minningin er þannig að seinni leikurinn hafi svo verið á stórum velli og fullt af fólki. Við mættum held ég úrvalsliði leikmanna úr deildinni í Indónesíu sem valið var af stuðningsmönnum. Við vorum miklu betri í þessum leikjum og þessi seinni leikur er kannski frægastur fyrir að Albert Guðmundsson kom inn á og skoraði þrennu. Það man eðlilega enginn eftir fjórða markinu okkar," segir Arnór og hlær.
Hans fyrsta landsliðmark kom gegn Liechtenstein 2009 en annað markið hans kom gegn Japan og var það fyrsta markið sem Ísland skoraði undir stjórn Lars Lagerbäck og Heimis Hallgrímssonar.
„Það var gaman að taka þátt í þessu verkefni í Indónesíu, umgjörðin var stór, margir á vellinum og það var eins í leiknum gegn Japan þegar við spiluðum þar 2012. Það var fyrsti leikurinn undir stjórn Lars og Heimis. Það var á risastórum velli, 40 þúsund manns í stúkunni. Það er eftirminnilegur leikur líka og ég náði að pota inn einu marki í lokin."
Ítarlegasta læknisskoðun sögunnar
Sumarið 2013 samdi Arnór við Helsingborg eftir þrjú ár með Esbjerg. Á þeim tíma var hann bæði orðaður við áframhaldandi veru í Danmörku og svo endurkomu til Hollands.
„Áður en ég skrifaði undir hjá Helsingborg var ég í rauninni búinn að skrifa undir hjá öðru félagi. Þetta var eiginlega sturlað dæmi. Það var búið að ganga vel, vorum nýbúnir að vinna bikarinn og ég búinn að skora slatta af mörkum. Það voru þrjú félög í Danmörku sem vildu fá mig og Helsingborg í Svíþjóð. Kasper Hjulmand var að þjálfa Nordsjælland á þessum tíma, liðið nýbúið að verða meistari og góð hugmyndafræði í gangi. Mér fannst Hjulmand og Nordsjælland ógeðslega spennandi, hann tók mig á fund sem var á allt öðru plani. Hann var með allar klippur af mér og fór yfir hvar hann sæi mig í liðinu sínu. Hann var búinn að pæla í alls konar hlutum og ég var gjörsamlega seldur á að fara til Nordsjælland."
„Ég fer í þriggja daga læknisskoðun, hef aldrei heyrt um svona dæmi. Þarna var ég búinn að spila í hálft ár meiðslalaus, en hafði vissulega verið eitthvað frá fyrir það. Ég fer upp á sjúkrahús, fer í alls konar skanna og myndatökur og sjúkraþjálfarar og læknar fara yfir allt saman. Það er massíft þolpróf og hlaupamælingar með og án bolta. Ég var á hóteli við leikvanginn og var tilbúinn að skrifa undir. Svo kemur í ljós að ég hefði fallið á læknisskoðun, allavega vildu þeir meina það, og þeir ekki tilbúnir að taka við mér. Það var algjört áfall af því ég var búinn að neita öllum hinum liðunum."
„Ég er þarna einn í bíl í Kaupmannahöfn, legg bílnum, hringi í þáverandi umboðsmann minn og segi honum frá þessu. 'Hvað gerum við núna?' Það var allt í rugli einhvern veginn. Umboðsmaðurinn náði einhvern veginn að sannfæra Helsingborg um að funda aftur með mér og ég enda á að semja þar. Ég flaug auðvitað í gegnum læknisskoðunina þar, ekkert vesen. Þarna var ég kominn á það að ég ætlaði mér ekki að fara frá Helsingborg nema vera búinn að skrifa undir, vildi ekki að þetta með Esbjerg myndi berast út."
„Þetta kom í veg fyrir tækifærið að vinna með Kasper Hjulmand sem hefði verið skemmtilegt. Í staðinn fékk ég annað skemmtilegt ævintýri í Svíþjóð."
Notaði bara vinstri fótinn í leiknum
„Þó að ég hafi fallið á læknisskoðuninni í Danmörku þá spilaði ég eiginlega alla leiki næstu fjögur ár eftir, það truflaði mig allavega ekki meira en þetta."
„Það sem kom upp var tengt hnémeiðslum sem ég hafði glímt við. Árið áður hafði ég verið lengi frá vegna meiðsla í hægra hné og var það í annað sinn á ferlinum sem þau meiðsli komu upp."
„Í seinna skiptið sem ég kom til baka eftir meiðslin spilaði ég allan leikinn, bikarleik með Esbjerg gegn neðri deildar liði, með því að nota bara vinstri löppina - til að hlífa hægri. Það kom sér vel að vera ágætur með vinstri. Það var eitt atvik í leiknum þar sem ég hefði átt að skjóta með hægri en gerði það ekki og fékk lesturinn frá þjálfaranum fyrir að hafa lagt boltann á vinstri. Þetta var árið sem við enduðum á að vinna svo bikarinn."
Fékk sér linsur og varð einn besti markvörður heims
Hjá Esbjerg lék Arnór með Lukas Hradecky sem er í dag landsliðsmarkvörður Finnlands og aðalmarkvörður þýsku meistaranna í Leverkusen. Á topp 100 lista ESPN í sumar var Hradecky númer níu.
„Hradecky er geggjaður markmaður. Við vorum bestu vinir hjá Esbjerg og hann einn af svo mörgum í þessu liði sem áttu eftir að taka skrefið lengra; Martin Braithwaite er annað dæmi. Hradecky var varamarkvörður fyrst þegar hann kom, ungur og efnilegur og hafði farið á reynslu hjá Manchester United frá Esbjerg (2010), hann stóð sig vel og United vildi fá hann en Esbjerg sagði nei."
„Fyrsti leikurinn hans sem byrjunarliðsmaður vannst 5-4. Hann gaf minnir mig þrjú mörk í leiknum; missir boltann inn tvisvar. Ég held að það hafi verið eftir þann leik sem hann fór í sjónmælingu og þá kom í ljós að hann sá ekki neitt. Hann fékk í kjölfarið linsur og leit ekkert til baka eftir það."
„Hann var sturlaður og eftir að hann fékk sér linsur var þetta bara ein leið, hann tók tröppuganginn og átti svo þetta magnaða tímabil með Leverkusen í fyrra. Ég er alltaf að bíða eftir því að eitthvað úrvalsdeildarlið á Englandi taki hann því ég veit að hann yrði geggjaður þar."
Náði að snúa Henke
Arnór nefndi fyrr í viðtalinu að hann hefði stanslaust í gegnum ferilinn þurft að sanna sig. Fréttaritari stoppaði við setningu í Wikipedia grein Arnórs þar sem fjallað var um endurkomu hans til Helsingborg á láni frá Torpedo Moskvu sumarið 2015. Þar er fjallað um að Henrik Larsson, þáverandi þjálfari Helsingborg, hefði sett Arnór út úr aðalliðshópnum og það sé tengt því að hann sé á svo háum samningi. Arnór endaði á því að ná að vinna sig aftur inn í liðið og endaði sem næstmarkahæsti leikmaður liðsins á tímabilinu.
„Þetta var eitt af þeim augnablikum þar sem mitt hugarfar og mín reynsla af því að hafa lent í mótlæti kom upp innra með mér. Helsingborg var í miklum peningavandræðum á þessum tíma og var að losa sig við leikmenn. Ég var á löngum og stórum samningi á þessum tíma og var beðinn um að fara. Ég fór á láni til Rússlands í nokkra mánuði en eftir að láninu lauk þá var staðan sú sama hjá Helsingborg. Ég fékk þau skilaboð að ég fengi ekkert að spila og þyrfti að finna mér nýtt lið."
„Henke tók við liðinu 2015 og vildi taka til, bæði i bókhaldinu og í hópnum. En þegar einhver segir mér að ég geti ekki eitthvað eða sé ekki í plönunum, þá hef ég alltaf valið það að taka slaginn frekar en að fara í einhverja fýlu, ég hef aldrei séð það virka. Ég endaði tímabilið sem lykilmaður, það var mjög stórt fyrir mig. Ég man að þegar glugganum var að loka, ég var búinn að spila nokkra leiki og gera vel, þá voru lið erlendis frá sem vildu fá mig og ég var tilbúinn að fara. Þá kom Henke til mín og sagðist hafa not fyrir mig og gat ekki látið mig fara. Það var ákveðinn sigur fyrir mig að hafa náð að snúa honum á mjög stuttum tíma. Það var gríðarleg viðurkenning og við erum mestu mátar í dag."
Arnór sagði frá því í skemmtilegu viðtali við Vísi í vetur að hann hefði eingunis fengið minnihluta launa sinna hjá Torpedo Moskvu greidd á réttum tíma. Hann fór tveimur árum eftir veruna þar aftur í heimsókn til Moskvu og náði, ótrúlegt en satt, að sækja þann pening sem hann átti inni.
Spilaði aldrei aftur í hægri bakverði
Arnór er þekktur sem sóknarmaður en á sínum tíma lék hann nokkra leiki í hægri bakverði. Hvernig kom það til?
„Undirbúningstímabilið 2015, áður en ég fór til Rússlands, þá var allt reynt til að láta mig fara frá Helsingborg. Ég var á þeim tíma að spila sem 'tía' og kantmaður. Mér fannst ekkert rosalega spennandi að vera bakvörður, það elst enginn upp og vill vera eins og Gary Neville, en Henke setti mig í bakvörðinn á undirbúningstímabilinu og það gekk vel."
„Þegar ég kom svo aftur og var búinn að vinna mig inn í liðið þá vantaði mann í bakvörðinn og ég tók nokkra leiki sem gekk bara fínt."
„Ég fer svo til Hammarby og í leik snemma á tímabilinu, Birkir Már var í banni og aðrir meiddir, þá var ég settur í hægri bakvörðinn og annar kantmaður settur í vinstri bakvörðinn. Leikurinn var gegn Elfsborg og þetta var alvöru hauskúpuleikur hjá mér. Ég tapaði návígi í fyrsta markinu, gaf svo vítið í öðru markinu, skora svo úr víti hinu megin og minnka muninn. Elfsborg komst svo í 3-1 eftir innkast frá mér þar sem við misstum boltann og til að kóróna þetta allt þá gaf ég annað víti. Ég hef ekki spilað hægri bakvörð síðan þá og skil það vel," segir Arnór og hlær. Lokatölur 4-1 fyrir Elfsborg, Arnór með mark Hammarby en gaf tvö víti og átti stóra sök í hinum mörkunum líka. „Ég svaf ekki mikið þá nótt, en svo var bara upp á hestinn aftur og næsti leikur."
„Súrrealískt að vera þarna"
Eins og Arnór hefur nefnt og fram hefur komið þá fór Arnór ekki áfallalaust í gegnum sinn feril. Meiðsli settu sín strik í reikninginn. Lokaspurning tengdist meiðslum því Arnór missti nánast af öllu tímabilinu 2009-10 tímabilinu vegna bakmeiðsla. Vorið 2010 hitti hann Hans-Wilhelm Müller-Wohlfart sem var læknir Bayern München og þýska landsliðsins á þeim tíma. Fréttaritari kannaðist við nafnið úr Football Manager tölvuleiknum, mjög öflugur sjúkraþjálfari í þeim leik. Hvernig kom það til að Arnór fór til Müller-Wohlfart?
„Þetta var í raun svona síðasta úrræðið á þessum tíma, ég var búinn að koma mér inn í liðið og við urðum bikarmeistarar árið áður. Ég var að renna út um sumarið og umboðsmaðurinn minn þáverandi reddaði mér inn hjá Müller-Wohlfart. Ég var á stofunni hans í München í viku og svo kom ég aftur í viku. Hann hjálpaði mér að koma til baka."
„Það var súrrealískt að vera þarna, hann er goðsögn í þessum geira. Þarna voru menn eins og Andriy Shevchenko, Milan Baros, James Rodriguez, Arjen Robben að labba inn. Það var gaman að sjá þetta dæmi allt og hann hjálpaði mér að komast aftur af stað. Maður fann að maður var að fá bestu aðstoðina sem var í boði," segir Arnór.
26.10.2024 20:22
Fjölskyldan kom Arnóri skemmtilega á óvart í kveðjuleiknum - „Ómetanlegt"
24.10.2024 16:15
Smáradona leggur skóna á hilluna - „Líður vel í hjartanu að kveðja með félagið á þessum stað"
25.10.2024 13:00
Gömlu liðsfélagarnir andstæðingar í kveðjuleiknum - „Stórkostlegur ferill hjá stórkostlegri manneskju"
Athugasemdir