„Þetta er erfitt. Mér fannst við geta stolið þessu í lokin,“ sagði Karólína Lea Vilhjálmsdóttir, markaskorari Íslands, eftir 1-1 jafntefli gegn Ítalíu á EM.
Lestu um leikinn: Ítalía 1 - 1 Ísland
„Það var ekki mikið að frétta sóknarlega hjá okkur. Við vorum góðar varnarlega. Við þurfum að spila okkur betur saman sóknarlega.“
Hvernig var að skora sitt fyrsta mark á stórmóti?
„Það var mjög gaman. Ég held að það hafi sést á þessum myndum, en svo er maður búinn að gleyma þessu eftir að ég klúðraði færinu í lokin.“
Karólína var svekkt með að liðið náði lítið að halda í boltann í dag. Hún fékk dauðafæri til að skora sigurmarkið í lokin en setti boltann rétt fram hjá.
„Ég þarf aðeins að teygja mig í boltann. Þetta var frábærlega gert hjá Sveindísi. Ég veit ekki, ég myndi alltaf skora úr níu af tíu skiptum þarna. Þetta gekk ekki í dag.“
„Ég er mjög kröfuhörð á sjálfa mig og ég held að ég muni ekki sofa vel. Ég verð samt fersk á morgun.“
Lokaleikurinn í riðlinum er gegn Frakklandi og þar þurfum við líklega sigur til þess að komast áfram. „Maður fer inn í alla leiki til að vinna. Vonandi skíta þær á sig og við verðum góðar," sagði Karólína að lokum.
Athugasemdir