Íslenska kvennalandsliðið tók á móti Finnlandi í vináttulandsleik sem fram fór á Laugardalsvelli í dag.
Íslenska liðið byrjaði leikinn ágætlega og fengu fyrsta færi leiksins og voru sprækari en það voru Finnar sem tóku forystuna og um leið stjórn á leiknum.
„Mér fannst við ekki spila neitt sérstaklega vel. Mér finnst þetta rosalega auðveld mörk sem þær eru að skora, þær eru ekki að skapa sér mikið af opnum færum." Sagði Glódís Perla Viggósdóttir fyrirliði landsliðsins eftir leikinn í dag.
"Samt sem áður þá erum við ekki að halda nægilega vel í boltann og of langt á milli lína hjá okkur á of stórum pörtum í leiknum þannig að þær eru að halda alltof lengi í boltann og við svolítið fastar á okkur eigin vallarhelmingi í lágpressu og náum ekki að leysa það nógu vel þegar að við vinnum hann þannig að ótrúlega margt sem að við getum litið tilbaka og lært af eftir þennan leik."
Íslenska liðið byrjaði leikinn í nýlegu leikkerfi en þær stilltu upp í 3-5-2.
„Við spiluðum svona á móti Sviss í leiknum á undan og gekk vel þá en kannski svolítið öðruvísi lið Finnar sem við vorum að mæta í dag og ég get ýmindað mér að þær bjuggust við að við myndum spila þetta því mér fannst þær vera að leysa þetta ótrúlega vel oft, þær eru gott lið og vilja halda í boltann og voru með gott re-press en við vorum búnar að tala um það að ef við myndum ná að leysa það þá væri fullt af plássi og það sýndi sig alveg þegar að við náðum að leysa þá var fullt af plássi en við bara gerðum það ekki nógu oft."
Nánar er rætt við Glódísi Perlu Viggósdóttur í spilaranum hér fyrir ofan.